Akureyrarbær ekki með beina aðkomu að kjaradeilum

Akureyrarbær ekki með beina aðkomu að kjaradeilum

Fyrr í dag gaf Akureyrarbær út frá sér tilkynningu þeirra mála að það eigi ekki, fremur en önnur sveitarfélög í landinu, beina aðkomu að kjaradeilum ríkis, sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands.

Vísar Akureyrarbær í samkomulag um kjarasamningsumboð frá 9. janúar 2023 þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga veitir fullnaðarumboð til kjarasamningagerðar fyrir hönd Akureyrarbæjar við öll stærstu stéttarfélög landsins. Einnig segir í tilkynningunni:

Akureyrarbæ og öðrum sveitarfélögum sem undirritað hafa samkomulagið er samkvæmt umboðinu ekki heimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð. Sveitarfélagið skuldbindur sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur því fullt umboð til að annast allar kjaraviðræður, ganga frá kjarasamningum og annast útgáfu þeirra í samráði við viðkomandi stéttarfélög.

„Við erum upplýst um gang mála en þetta er alfarið í höndum samningsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Okkur er hreinlega ekki heimilt samkvæmt samkomulaginu að hlutast á nokkurn hátt til um þessar kjaradeilur sem leysast vonandi von bráðar.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó