Akureyrarbær sagði NEI

Akureyrarbær sagði NEI

Stéttarfélagið Eining-Iðja sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem þeir lýsa vonbrigðum við svörum Akureyrarbæjar.
,,Í gær barst svar frá Akureyrarbæ við bréfi sem Eining-Iðja afhenti sveitarstjórum eða staðgenglum þeirra á félagssvæðinu til að koma á framfæri þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem vinna hjá sveitarfélögum. Einnig fór félagið fram á að sveitarfélögin greiði starfsfólki sínu sem starfa eftir samningi SGS innágreiðslu þann 1. ágúst að upphæð kr. 105.000 m.v. 100% starf þann 1. júní sl. og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall,“ segir í tilkynningunni.

Í svarinu frá bænum segir að meirihluti bæjarráðs hafni erindi Einingar-Iðju. Þar sem samningsumboð sveitarfélagsins vegna kjarasamninga er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga mun sveitarfélagið ekki tjá sig opinberlega um málið eða taka afstöðu til þess. Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðsluna. 

Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, segir að niðurstaða bæjarráðs séu mikil vonbrigði. „Það er greinilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga er búið að múlbinda Akureyrarbæ þegar tekið er fram að sveitarfélagið ætli ekki að tjá sig opinberlega um málið eða taka afstöðu til þess á sama tíma og verið er að mismuna starfsmönnum þess eftir því í hvaða stéttarfélagi þeir eru. Ég veit að félagsmenn eru ekki sáttir við þessa niðurstöðu og efast ekki um að þeir eigi eftir að heyra í kjörnum fulltrúum eða launadeild bæjarins til að fá botn í þennan gjörning. Ég vil þó þakka Sóleyju fyrir að hlýða ekki SÍS í einu og öllu. Hún hefur munað eftir kosningaloforðum um hvað starfsfólk sveitarfélagsins sé dýrmætt,“ sagði Björn að lokum. 

Bókun bæjarins í heild má sjá hér fyrir neðan:

Bæjarráð hefur á fundi sínum þann 18. júlí 2019 gert eftirfarandi bókun:

Lagt fram erindi dagsett 1. júlí 2019 þar sem Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju kemur á framfæri stöðu í samningamálum félagsmanna hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu. Vísað er til þess að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og félög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september nk. Samið hefur verið um innágreiðslu upp á kr. 105.000 fyrir 100% vinnu. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur hafnað því að semja um slíka greiðslu til félagsmanna Starfsgreinasambandsins þar sem búið væri að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Farið er fram á að sveitarfélög greiði starfsmönnum sínum sem starfa eftir samningi Starfsgreinasambandsins innágreiðslu þann 1. ágúst að upphæð kr. 105.000 m.v. 100% starf þann 1. júní sl. og hlutfallslega lægra fyrir lægra starfshlutfalla.

Meirihluti bæjarráðs hafnar erindi Einingar-Iðju. Þar sem samningsumboð sveitarfélagsins vegna kjarasamninga er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga mun sveitarfélagið ekki tjá sig opinberlega um málið eða taka afstöðu til þess. Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista sat hjá við afgreiðslu.

Sambíó

UMMÆLI