Færeyjar 2024
Kvennaathvarfið

<strong>Akureyrarbær tekur á móti 350 flóttamönnum</strong>

Akureyrarbær tekur á móti 350 flóttamönnum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Nichole Leigh Mosty, forstöðukona Fjölmenningarseturs og Ásthildur Sturludóttur, bæjarstjóri á Akureyri, undirrituðu í dag samning um samræmda móttöku flóttafólks á Akureyri. Samningurinn var undirritaður í Ráðhúsi Akureyrar og kveður á um að Akureyrarbær taki í samstarfi við stjórnvöld á móti allt að 350 flóttamönnum fram til 31. desember 2023. Akureyrarbær hefur síðastliðin ár verið móttökusveitarfélag fyrir flóttafólk og tekið á móti hópum flóttamanna sem stjórnvöld hafa boðið til landsins, auk þess að vera þátttakandi í tilraunaverkefni um samræmda móttöku flóttafólks. Fólk á flótta frá Sýrlandi, Afganistan, Úkraínu og víðar hefur sest að á Akureyri.

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þar með talið íslenskunámi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir að Akureyrarbær hafi víðtæka reynslu af móttöku flóttafólks. „Sveitarfélagið ætlar nú í góðri samvinnu við stjórnvöld að taka á móti allt að 350 flóttamönnum til viðbótar. Það er mjög mikils virði. Ég óska bæjaryfirvöldum og Akureyringum innilega til hamingju – og nýjum íbúum sveitarfélagsins velfarnaðar.“

„Það er samfélagsleg skylda okkar að taka eins vel og kostur er á móti fólki á flótta og mjög mikilvægt að það sé gert með skynsamlegum hætti og í traustu samstarfi við ríkisvaldið,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri. „Ég fagna fjölbreytileikanum og veit að fólk hvaðanæva að getur auðgað samfélagið og víkkað sjóndeildarhring okkar. Við bjóðum fólkið ævinlega velkomið og vonum að því muni farnast vel á Akureyri.“

UMMÆLI

Sambíó