Lyftingamaðurinn Alex Cambray Orrason hjá KA er íþróttakarl Akureyrar 2024 og knattspyrnukonan Sandra María Jessen hjá Þór/KA er íþróttakona Akureyrar 2024. Þess má geta að Sandra María var einnig kjörin Íþróttakona Akureyrar árið 2023. Í öðru sæti voru þau Baldvin Þór Magnússon hlaupari hjá UFA og Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona hjá HFA. Í þriðja sæti voru þau Þorbergur Ingi Jónsson utanvegahlaupari hjá UFA og Julia Bonet Carreras blakkona hjá KA. Þetta segir í tilkynningu frá ÍBA.
Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2024 var lýst á Íþróttahátíð Akureyrar á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og Fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi 23. janúar 2025. 12 af 20 aðildarfélögum ÍBA tilnefndu alls 35 íþróttamenn úr sínum röðum, 17 íþróttakonur og 18 íþróttakarla. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp.
Á hátíðinni veitti Fræðslu- og lýðheilsuráð viðurkenningar til 12 aðildarfélaga ÍBA vegna 329 Íslandsmeistara á síðasta ári og vegna 132 Landsliðsmanna. Afrekssjóður Akureyrar veitti átta ungum afreksefnum styrki. Samtals hlutu því 18 einstaklingar afreksstyrki úr sjóðnum að þessu sinni.
Alex Cambray Orrason
Alex Cambray Orrason er íþróttakarl Akureyrar í fyrsta sinn. Alex Cambray hefur átt afbragðs ár í sinni íþrótt, kraftlyftingum. Hann setti nokkur Íslandsmet, náði fremsta árangri allra íslenskra karlkyns keppanda á alþjóðamótum, ásamt því að hafa sigrað öll innlend mót ársins í búnaði óháð þyngdarflokki. Í mars keppti Alex á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði, þar sem hann átti gott mót og landaði Íslandsmeistaratitli í sínum þyngdarflokki. Varð hann þar stigahæsti lyftari mótsins óháð þyngdarflokk. Í maí keppti hann á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Lúxemborg. Þar keppti hann í sterkum flokk og lenti í 5. sæti og sló Íslandsmetið í samanlögðu með því að lyfta 840 kg samtals. Hann lyfti meðal annars 292.5kg í réttstöðulyftu sem er íslandsmet í hans flokk. Þá keppti hann á bikarmóti í kraftlyftingum í 105 kg flokki og sló þar íslandsmet í hnébeygju með 360,5 kg lyftu en það er stigahæsta hnébeygja sem hefur verið tekin á Íslandi. Á mótinu sigraði hann flokkinn og var jafnframt stigahæstur óháð þyngdarflokki sem tryggði honum bikarmeistaratitilinn. Í nóvember keppti Alex á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem haldið var hér á Íslandi. Lenti hann þar í 9.sæti með 837.5 kg í samanlagðri þyngd og átti góðan dag í hnébeygju þar sem hann endaði í 6. sæti. Alex lýkur árinu sem fjórtándi öflugasti lyftari ársins á heimslista alþjóða kraftlyftingasambandsins (IPF) og í 7. sæti á styrkleikalista Evrópska lyftingasambandsins (EPF). Nú í upphafi árs 2025 var Alex kjörinn íþróttakarl KA fyrir árið 2024.
Sandra María Jessen
Sandra María Jessen er íþróttakona Akureyrar í annað sinn. Sandra María er mikilvægur liðsmaður í ungu en öflugu liði Þórs/KA, fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í ástundun, hugarfari, vinnuframlagi og baráttu, innan vallar sem utan. Sandra María var valin besti leikmaður Þórs/KA að loknu keppnistímabilinu 2024. Sandra María var algjör lykilleikmaður í frábærum árangri Þórs/KA í mótum ársins. Hún er fyrirliði liðsins, reyndasti leikmaður þess og skoraði langflest mörk allra leikmanna. Með liði Þórs/KA endaði hún í 4. sæti Bestu deildarinnar ásamt því að spila til undanúrslita í bæði Lengjubikar og Mjólkurbikarkeppni KSÍ. Sandra María var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum deildarinnar og var að auki markadrottning deildarinnar. Hún skoraði alls 33 mörk í leikjum Þórs/KA í KSÍ-mótunum, 22 mörk í 23 leikjum í Bestu deildinni, tvö mörk í þremur leikjum í Mjólkurbikarkeppninni og níu mörk í sex leikjum í Lengjubikarnum. Að auki átti hún tíu stoðsendingar í þessum 32 leikjum. Þá kom hún við sögu í níu landsleikjum, í byrjunarliði í mörgum þeirra. Nú í upphafi árs 2025 var Sandra María kjörin íþróttakona Þórs fyrir árið 2024.
Á athöfninni fengu þau aðildarfélög sem áttu Íslandsmeistara og landsliðsfólk á liðnu ári viðurkenningar og heiðursviðurkenningar Fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar voru afhendar fjórum öflugum einstaklingum fyrir vel unnin störf í þágu félags-, íþrótta- og æskulýðsmála á Akureyri. Þau sem hlutu heiðursviðurkenningu í ár voru Björn Halldór Sveinsson (Íþróttafélagið Þór), Erlingur Kristjánsson (Knattspyrnufélag Akureyrar), Guðmundur Bjarnar Guðmundsson (Skíðafélag Akureyrar) og Hrefna Brynjólfsdóttir (Knattspyrnufélag Akureyrar).
Þetta er í 46. sinn sem Íþróttamaður Akureyrar er kjörinn en það var fyrst gert árið 1979. Alls hafa 32 einstaklingar hlotið þetta sæmdarheiti, oftast allra júdókappinn Vernharð Þorleifsson, sjö sinnum alls.
UMMÆLI