Allir neita ábyrgð í rekstri Bakkaganganna við HúsavíkMynd: Gaukur Hjartarson.

Allir neita ábyrgð í rekstri Bakkaganganna við Húsavík

Enginn vill kannast við að eiga eða bera ábyrgð á Húsavíkurhöfðagöngunum skammt frá Húsavík. Göngin kostuðu hátt í fjóra milljarða en framkvæmdin var kostuð úr ríkissjóði. Vísir greinir fyrst frá.

Vegagerðin sá um að byggja göngin og senda nú boltann yfir á Norðurþing. Forstjóri Vegagerðarinnar segir í bréfi til byggðaráðs Norðurþings að göngin séu ekki á forræði Vegagerðarinnar og stofnunin ætli þ.a.l. ekki að þjónusta göngin og ætli að hætta afskiptum af þeim alfarið 1. nóvember næstkomandi.

„Við lítum svo á að við megum ekki þjónusta göngin, þau eru ekki hluti af þjóðvegakerfinu og engin almenn umferð leyfð um þau. Þess vegna má vegagerðin ekki nota opinbert fé til að þjónusta þau. Við fengum bara það hlutverk að byggja göngin og við höfum lokið því verki,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í samtali við Vísi.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, segir í samtali við Vísi að ríkið eigi göngin og nú þurfi að leysa úr því hvernig á að þjónusta þau. Hann segir jafnframt málið vera komið í einhverja flækju sem enginn virðist vita hvernig eigi að greiða úr. Byggðarráð Norðurþings útilokaði á fundi sínum í síðustu viku að sveitarfélagið tæki við rekstrinum.

Göngin voru upphaflega á forræði atvinnuvegaráðuneytisins en um uppbygginguna á Bakka og fjármögnun hennr voru sett sérstök lög árið 2013. Áætlaður kostnaður við gangagerðina var upphaflega 1,8 milljarðar en síðar kom í ljós að kostnaðurinn var stórlega vanáætlaður. Ekki var til að mynda gert ráð fyrir neinum kostnaði við hönnun ganganna. Því fékk Vegagerðin aukaframlög í fjárlögum fyrir árin 2015 og 2016 og heildarkostnaður við byggingu ganganna var hátt á fjórða milljarð.

Nú virðist enginn ætla að taka ábyrgð á rekstri og viðhaldi ganganna en að sögn Kristjáns situr málið einfaldlega fast í einhverskonar ráðuneytapólitík í fjármála-, atvinnuvega- og í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

 

UMMÆLI