Allt frá brauðtertu til hins fræga Trump-dans í nýjasta þættinum „Forysta og samskipti“Mynd/HA

Allt frá brauðtertu til hins fræga Trump-dans í nýjasta þættinum „Forysta og samskipti“

Sigurður Ragnarsson deildarforseti Viðskiptadeildar stjórnar hlaðvarpinu Forysta og samskipti. Tæpt ár er síðan fyrsti þátturinn leit dagsins ljós en um er að ræða fyrstu hlaðvarpsseríu háskólans. Þetta kemur frama á vef Háskólans á Akureyri, þar segir einnig:

Grétar Þór Eyþórsson prófessor við Viðskiptadeild er nýjasti viðmælandi Sigurðar. Í þættinum er farið yfir alþingiskosningarnar fram undan og sérstaklega út frá forystu og hvernig forystan birtist með ólíkum hætti hjá flokkum og frambjóðendum. Einnig er komið inn á samskipti og kynningar í tengslum við kosningarnar. Að lokum er aðeins farið yfir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og meðal annars ræða þeir félagar hvers vegna Trump hafi sigrað.

Fjölmiðlabakterían fær rými innan veggja HA

Aðspurður um hvernig hlaðvarpið hafi komið til segir Siggi: „Sem gamall fjölmiðlamaður hefur mér aldrei tekist að losna við fjölmiðlabakteríuna. Ég var því búinn að hugsa lengi um að byrja með hlaðvarp og þegar ég réði mig til háskólans og sá hvers konar fyrirmyndaraðstaða, fagmennska og stuðningur var til staðar þá ákvað ég að kýla á þetta. Mér fannst líka spennandi tilhugsun að fá tækifæri til að ræða og vinna með efni sem ég tel gagnlegt fyrir svo marga. Þetta hefur gengið mjög vel, ég hef verið lánsamur að fá í heimsókn alls konar fólk með ólíka reynslu og bakgrunn. Ég legg áherslu á fjölbreytni og fram undan eru þættir með alls konar fólki.“

„Það sem hefur í raun staðið upp úr er hversu verðmætt það er þegar fólk er tilbúið að miðla þekkingu sinni og reynslu. Ég hef heyrt frá mörgum sem hafa hlustað eða horft og hafa þau sérstaklega nefnt umræðuefni sem hefur nýst þeim bæði í starfi og í daglegu lífi. Sem dæmi, þegar Sirrý kom í heimsókn deildi hún með okkur ótal mörgum góðum ráðum sem nýtast firnavel í samskiptum almennt,“ bætir Siggi við.

Kosningar ræddar með öðrum gleraugum en í hefðbundnum kosningaþáttum

Nýjasti þátturinn er öðruvísi en hinir. „Við erum að taka fyrir alþingiskosningarnar fram undan og forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Við ræðum þessar kosningar með öðrum gleraugum en þessir hefðbundnu kosningaþættir og skoðum meðal annars sérstaklega forystufærni og samskipti í tengslum við frambjóðendur og flokka. Við komum inn á margt, allt frá brauðtertum til hins fræga Trump-dans sem er farinn að birtast okkur víða. Ég lofa samt ekki danskennslu… það kemur kannski seinna,“ segir Siggi að lokum.

VG

UMMÆLI

Sambíó