Andri Snær verður þjálfari handboltaliðs KAMynd/KA

Andri Snær verður þjálfari handboltaliðs KA

Í tilkynningu sem KA sendi frá sér í gær kemur fram að Handknattleiksdeild KA hefur ráðið Andra Snæ Stefánsson sem næsta aðalþjálfara meistaraflokks karla í handbolta.

Andri Snær er KA maður í húð og hár en hann hóf að leika fyrir meistaraflokk KA árið 2003 og lék með liðinu nær óslitið uns hann lagði skóna á hilluna árið 2021. Samtals lék hann 166 leiki fyrir KA í deild, bikar og evrópu og var fyrirliði liðsins í 85 leikjum. Þar á milli lék hann með sameiginlegu lið KA og Þórs, Akureyri Handboltafélag, á árunum 2006 til 2017 og er hann leikjahæsti leikmaður í sögu Akureyrar með 222 leiki og flesta þeirra sem fyrirliði.

Á sama tíma hefur Andri Snær verið iðinn við þjálfun innan félagsins en hann hóf að þjálfa hjá KA árið 2002. Á þessum rúmum tuttugu árum hefur hann skilað fjölmörgum leikmönnum upp í meistaraflokk og tryggt félaginu ófáa titlana. Til að mynda gerði Andri Snær 5. flokk karla að Bikar- og Íslandsmeisturum á nýliðnum vetri.

Í þjálfuninni er Andri Snær einna þekktastur fyrir tíma sinn með meistaraflokk KA/Þórs er hann hampaði öllum titlum sem í boði eru er kvennalið KA/Þórs stóð uppi sem Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari auk þess að vera Meistari Meistaranna en Andri stýrði liðinu frá 2020 til 2023.

“Við erum afar spennt fyrir því að Andri Snær taki við keflinu,“ segir Jón Heiðar Sigurðsson, formaður handknattleiksdeildar KA. “Hann býr yfir mikilli þekkingu og metnaði, og við erum sannfærð um að hann sé rétti maðurinn til að leiða liðið áfram. Andri er gríðarlega öflugur þjálfari og við treystum honum fullkomlega til að ná fram því besta úr leikmannahópnum.“

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó