beint flug til Færeyja

Andri Teitsson ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og framtíðar hjá Orkusölunni

Andri Teitsson ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og framtíðar hjá Orkusölunni

Andri Teitsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og framtíðar hjá Orkusölunni.

„Andri mun leiða vinnu Orkusölunnar við greiningu og þróun nýrra viðskiptatækifæra og einnig vinnu við þróunarverkefni á sviði orkuöflunar og orkunýtingar. Andri mun hefja störf á allra næstu dögum“, segir í tilkynningu frá félaginu.

Orkusalan rekur sex vatnsaflsvirkjanir á Íslandi, þar á meðal Lagarfossvirkjun, Skeiðsfossvirkjun og Rjúkandavirkjun. Félagið selur raforku til heimila, fyrirtækja og stofnana um allt land á samkeppnismarkaði. Orkusalan er dótturfélag Rarik, sem er í eigu Íslenska ríkisins. 

Andri hefur undanfarin fjórtán ár starfað sem framkvæmdastjóri Fallorku á Akureyri. Siðastliðin fimm ár hefur hann jafnframt verið bæjarfulltrúi fyrir L-listann á Akureyri. Áður hefur Andri meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands og KEA og þar áður var hann forstöðumaður hjá Íslandsbanka. Andri lauk prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands og MS-prófi í iðnaðarverkfræði frá Stanford-háskóla í Kaliforníu. Andri hefur víðtæka reynslu af íslensku atvinnulífi og hefur meðal annars setið í stjórnum Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, Marel og Norðlenska matborðsins.

„Ráðning Andra er í takt við þá stefnu Orkusölunnar að auka eigin orkuframleiðslu til að geta tekið virkan þátt í því stóra verkefni sem orkuskiptin verða á næstu árum“, segir í tilkynningu frá félaginu.

„Það er spennandi verkefni fyrir mig að fá tækifæri til að móta nýtt svið viðskiptaþróunar hjá Orkusölunni. Félagið býr að sterkri fjárhagsstöðu og hefur alla burði til að auka raforkuframleiðslu sína umtalsvert á næstu árum. Bæði verður horft til hefðbundinnar nýtingar á vatnsafli og jarðvarma en einnig nýrra orkugjafa svo sem vind- og sólarorku og samspils þessara þátta,“ segir Andri.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó