Ásdís Arnardóttir er bæjarlistamaður Akureyrar 2020

Ásdís Arnardóttir er bæjarlistamaður Akureyrar 2020

Vorkoma Akureyrarstofu var haldin í dag í netheimum. Veittar voru ýmsar viðurkenningar og tilkynnt að bæjarlistamaður Akureyrar árið 2020 er Ásdís Arnardóttir sellóleikari.

Vegna samkomubanns var Vorkoman send út á Facebooksíðu Akureyrarbæjar og hægt er að skoða upptökuna hér að neðan.

Bæjarlistamaðurinn Ásdís Arnardóttir er fædd árið 1967. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1987 og stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólana í Reykjavík og á Seltjarnarnesi en hélt síðan utan til náms, fyrst til Barcelona en síðan til Boston, þaðan sem hún lauk mastersgráðu árið 1995. Undanfarin fjórtán ár hefur hún búið og starfað á Norðurlandi. Hún kennir á selló, kontrabassa, stjórnar strengjasveitum og hefur umsjón með kammertónlist í Tónlistarskólanum á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hún hefur verið leiðandi sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þennan tíma. Auk þess hefur hún tekið þátt í fjölmörgum viðburðum, eins og Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju, Barokksmiðju Hólastiftis, Sumartónleikum á Hólum og verkefninu Norðlenskar konur í tónlist svo eitthvað sé nefnt. Á starfslaunatímabilinu hyggst Ásdís meðal annars minnast þess að 250 ár eru liðin frá fæðingu tónskáldsins Ludwigs van Beethoven, þá ætlar hún einnig að spila fyrir yngri jafnt sem eldri íbúa bæjarins.

Heiðursviðurkenningu hlaut Gestur Einar Jónasson fyrir störf sín að menningarmálum ýmis konar. Hann var í hópi fyrstu leikara sem voru ráðnir á fastan samning hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1973. Á tíma sínum hjá LA lék Gestur um eða yfir 100 hlutverk á sviði á Akureyri og á leikferðum víða um land, auk þess að leikstýra hjá L.A. og hjá áhugafélögum. Gestur hefur einnig gert það gott í bíómyndum og af þeim má nefna Útlagann, Kristnihald undir jökli og Stellu í orlofi. Hann var safnstjóri Flugsafns Íslands frá árinu 2008 til síðustu áramóta og vann þar að uppbyggingu safnsins sem varðveitir mikilvæga atvinnu- og menningarsögu.

Snorri Guðvarðsson málarameistari hlaut viðurkenningu Húsverndarsjóðs Akureyrar fyrir ævistarf hans á sviði húsverndar á Íslandi. Sérsvið Snorra er innanhússmálun á friðlýstum og friðuðum kirkjum og húsum um land allt og er óhætt að segja að hann sé einn fremsti sérfræðingur og fagmaður landsins á þessu sviði. Hann byggir málningarvinnu sína oftar en ekki á rannsóknarvinnu sem er fólgin í í því að greina eldri málningarlög og litasamsetningar og færa litaval og málningaráferð til upprunalegs horfs. Starfsferill Snorra spannar tæp 50 ár og á þeim tíma hefur hann unnið við málun og viðgerðir á um 50 kirkjum víðsvegar um landið. Hann hefur unnið í flestöllum gömlu kirkjum í Eyjafirði og síðustu ár hefur hann unnið í áföngum við málun á Lögmannshlíðarkirkju og Minjasafnskirkjunni. Snorri hefur unnið við mörg hús í húsasafni Þjóðminjasafnsins í gegnum árin auk annarra friðlýstra húsa víðvegar um landið.

Byggingalistaverðlaun hlaut Anna Margrét Hauksdóttir arkitekt FAÍ, AVH ehf. og Bergfesta byggingarfélag fyrir útfærslu fjölbýlishúsa við Halldóruhaga 8, 10, 12 og 14. Húsagerðin er tveggja hæða fjórbýlishús með útitröppum. Húsunum er skipt upp í tvíbýliseiningar, tveim og tveim saman með opnum stigum á milli. Útistigar njóta skjóls undir þaki og á bak við rimlaverk og eru því ekki meginatriði í útliti húsanna eða götumyndinni. Húsaeingarnar eru skásettar þannig að þær mynda fjölbreytta og áhugaverða húsaröð, sem er undirstrikuð með sérstöku meginformi húsanna.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó