beint flug til Færeyja

Askjan styrkir og eflir barnafjölskyldur

Askjan styrkir og eflir barnafjölskyldur

Askjan – fjölskyldustuðningur veitir barnafjölskyldum markvissa aðstoð inn á heimili varðandi uppeldi og heimilishald. Markmið Öskjunnar er að styrkja og efla barnafjölskyldur til að uppgötva sín eigin bjargráð og veita stuðning sem eykur foreldrahæfni og stuðlar að betri líðan og samskiptum innan fjölskyldunnar.

„Flest erum við sammála um að uppeldi barna sé eitt mikilvægasta og mest krefjandi verkefni sem foreldrar takast á við í lífinu. Uppeldisfærni er hins vegar ekki meðfædd. Maður þarf að læra á foreldrahlutverkið, líkt og allt annað, og það tekur tíma að tileinka sér nauðsynlega þekkingu, kunnáttu og hæfni,“ segir Gyða Björk Aradóttir, ráðgjafi Öskjunnar.

Gyða Björk segir ýmsar ástæður geta legið að baki þörf foreldra fyrir aðstoð Öskjunnar. „Þetta er allur skalinn af foreldrum, sem ýmist vegna aðstæðna sinna, erfiðleika hjá barninu eða umhverfisþátta þurfa aðstoð. Við virkjum foreldra og aðstoðum þá við að setja börnum mörk, bætum samskipti fjölskyldumeðlima, hjálpum til með skipulag og rútínu og veitum stuðning á fundum í skóla. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og sviðið er afar breytt.“

Askjan er ekki aðeins úrræði í erfiðustu málunum heldur stuðningur ef grunur er um einhvern vanda. „Útgangspunkturinn hjá okkur er að börn eiga erfitt, en þau eru ekki erfið. Við förum ekki inn á heimilin til að „laga“ börnin, heldur styrkjum við fjölskylduna, þannig að heildin virki betur. Í hröðu samfélagi gefst minni tími til gæðastunda og samveru, og það hefur áhrif á tengslin. Við vinnum að því að ýta undir og styrkja tengslin þar sem það er grunnurinn að vellíðan barna,“ segir Gyða.

Gyða Björk Aradóttir, Kristín Fanney Reimarsdóttir, Rut Viktorsdóttir og Elínborg Sigríður Freysdóttir eru ráðgjafar í Öskjunni.

Fjölskyldum sem telja sig geta nýtt þjónustuna er vísað í Öskjuna af starfsmanni félagsþjónustu, skólaþjónustu eða barnaverndar. Fjöldi mála það sem af er árinu 2024 eru 65 talsins, sem er tæplega 19% aukning frá árinu 2020. Mál tengd drengjum eru algengari, en kynjahlutfallið er 2/3 á móti 1/3. Lengd mála geta verið allt frá tveimur mánuðum upp í þrjú ár.

Nánari upplýsingar um Öskjuna eru á vef Akureyrarbæjar. Umfjöllun frá Akureyri.is

VG

UMMÆLI

Sambíó