Baráttuhópur fyrir Húsavíkurflugi (sem samanstendur af fulltrúum Norðurþings, Þingeyjarsveitar, stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum, atvinnufyrirtækjum þ.m.t. ferðaþjónustunni, HSN í
Þingeyjarsýslum, SSNE og Húsavíkurstofu) hafa afhent samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og
fjármálaráðherra áskorun um að tryggja áfram fjármuni á fjárlögum til farþega- og sjúkraflugs um
Húsavíkurflugvöll.
„Við teljum mjög mikilvægt að haldið sé úti öflugum flugsamgöngum allt árið
og að samlegðaráhrif geti verið með öðru innanlandsflugi á Íslandi, m.a. m.t.t. stærðar þeirra
flugvéla sem nýttar eru í flugið,“ segir í tilkynningu frá hópnum.
Hópurinn gerir kröfu á að viðhaldsverk á flugbraut og flugstöð á Húsavíkurflugvelli sem eru á
samgönguáætlun komist til framkvæmda sem fyrst.
Greinagerð hópsins má sjá í heild hér að neðan:
Húsavíkurflugvöllur hefur stórt upptökusvæði notenda, upp í Mývatnssveit og allt til Raufarhafnar sem er í um 140 km fjarlægð frá Húsavíkurflugvelli og 1,5 tíma í akstri. Ef fara þarf til Akureyrar bætist við 1 klst hvora leið auk kostnaðar við greiðslu í Vaðlaheiðargöng. Nauðsynlegt er að tryggja samfellu í flugáætlun farþega- og sjúkraflugs um Húsavíkurflugvöll á ársgrundvelli.
Ef áætlunarflug fellur niður verður erfiðara að halda úti sjúkraflugi þar sem ekki er hægt að fljúga sjúkraflug að vetrarlagi nema flugbraut sé haldið opinni. Það getur orðið kostnaðarsamara fyrir ríkissjóð ef fara þarf með allt sjúkraflug gegnum Akureyrarflugvöll yfir vetrartímann, svo ekki sé talað um umtalsverða lengingu viðbragðstíma og áhættu fyrir sjúklinga í krítísku ástandi. Þriggja mánaða ríkisstyrkur, eins og í vetur, er jákvæð aðkoma stjórnvalda en því miður treystir Norlandair sér ekki til að bjóða upp á flug hina 9 mánuðina og rofnar þá þjónustan sem er mjög slæmt. Verði ekki hægt að tryggja ríkisstyrk á ársgrundvelli hvað varðar flug til Húsavíkur, hlýtur að koma til greina að flugfélagið sem fengi úthlutað flugleiðinni Reykjavík-Húsavík, geri það á markaðslegum forsendum hluta úr ári á móti ríkisstyrk.
Norðurþing, Landsvirkjun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa unnið saman að uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka. Nú hafa tvö stór fyrirtæki sýnt mikinn áhuga á að byggja upp sína starfsemi á Bakka. Þá er fyrirhugað að hefja stækkun Þeistareykjavirkjunar í haust og eru í farvatninu fleiri atvinnuverkefni þar. Allt þetta kallar á mikil umsvif á svæðinu og aukin þörf fyrir ferðir til og frá höfuðborgarsvæðinu að Húsavík, Þeistareykjum og Bakka. Það er því mjög slæmt fyrir þessi áform ef áætlunarflug um Húsavíkurflugvöll verður ekki í boði.
Þá er Húsavíkurflugið jafnframt mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í landinu, en mikill vilji hefur verið hjá stjórnvöldum að dreifa álaginu af suðurhluta landsins sem hefur verið talinn svo til uppseldur. Það má því fullyrða að það sé öllu landinu í hag að haldið sé uppi áætlunarflugi út um landsbyggðirnar og að ferðafólk hafi ríkara val um að skoða sig um víðar en kringum höfuðborgarsvæðið. Hvað Þingeyjarsýslurnar varðar eru mikil sóknartækifæri í eflingu ferðarþjónustunnar. Það sem háir frekari uppbyggingu á svæðinu eru lélegar flugsamgöngur inná svæðið. Við því vilja heimamenn bregðast með góðum flugsamgöngum til Húsavíkur.
Undanfarna áratugi hafa stjórnvöld verið að þrengja að opinberri þjónustu út um landsbyggðirnar sem hefur leitt til þess að íbúar þurfa að sækja nánast alla sérfræðiþjónustu s.s. læknaþjónustu til Reykjavíkur með tilheyrandi kostnaði er tengist ekki síst ferða- og dvalarkostnaði. Það er lágmarkskrafa íbúa austan Vaðlaheiðar að ofan á óhóflegan kostnað bætist ekki óþarfa viðbótarakstur og kostnaður í Vaðlaheiðargöng.
Innanlandsflugin eru okkar mikilvægustu almenningssamgöngur og á meðan flestöll stjórnsýsla
og þjónusta er fyrst og fremst staðsett á Höfuðborgarsvæðinu skiptir það byggðir landsins öllu
máli að hafa stöðugt aðgengi að innanlandsflugi og þar með talið um Húsavíkurflugvöll.
UMMÆLI