Prenthaus

Atvinnumál á Akureyri

Hildur Bettý og Andri skrifa:

Atvinnulíf á Akureyri stendur í blóma um þessar mundir. Höldum áfram öflugri uppbyggingu þess á næstu árum.

Samherji hefur stigið stór skref í endurnýjun á skipaflota og nú á dögunum var formleg nafngift á Björgu EA 7, glæsilegu skipi sem mun færa úrvals hráefni að landi. Fiskvinnsluhús Útgerðarfélags Akureyringa gengur einnig í endurnýjun lífdaga með besta tækjakosti sem völ er á.

Byggingariðnaðurinn stendur vel, hér er kraftur í uppbyggingu nýrra íbúða í öllum stærðarflokkum og einnig eru í gangi og á döfinni stór verkefni eins og bygging hreinsistöðvar fyrir fráveitu í Sandgerðisbót.

Því til viðbótar eru greinar eins og verslun, þjónustugreinar, tækniráðgjöf og afþreying í öflugri framþróun.

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa það hlutverk gagnvart atvinnulífinu að tryggja að innviðir séu í lagi, svo sem varðandi framboð á lóðum fyrir framleiðslu eða þjónustu. Þannig leitar matvælafyrirtækið Norðlenska nú að lóð til að byggja á og vonandi finnst góð staðsetning hér á Akureyri. Bæjaryfirvöld þurfa einnig að tryggja skilvirkni og gagnsæi í skipulagsmálum, samgöngur, menntun, húsnæði og grunnþjónustu fyrir starfsfólk.

Það sem helst stendur atvinnulífinu fyrir þrifum er takmarkað framboð á raforku. Samkvæmt tillögum verkefnisstjórnar í þriðja áfanga rammaáætlunar er ekki gert ráð fyrir virkjun Skjálfandafljóts eða Austari og Vestari Jökulsár í Skagafirði. Þá hefur Landsneti gengið afleitlega að endurnýja byggðalínuna og hefur ný Blöndulína verið stopp í kerfinu í ein tíu ár. Skárri horfur eru með Hólasandslínu 3 sem á að tengja Eyjafjörð betur við virkjanir á Norðaustur- og Austurlandi og er einhver von til að hún komist í gagnið eftir 4 til 5 ár. Í millitíðinni getum við barið í brestina með til dæmis að byggja smávirkjanir og er nýútkomin skýrsla Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar góður vegvísir um það.

Samgöngur eru lykilatriði fyrir atvinnustarfsemi á Akureyri. Akureyrarhöfn er mjög góð og verður enn betri með komu nýs og öflugs dráttarbáts. Vegasamgöngur munu batna umtalsvert með tilkomu Vaðlaheiðarganga næsta haust eða vetur. Hins vegar er orðið tímabært að stytta og bæta leiðina til Reykjavíkur með Sundabraut og Svínvetningabraut. Dettifossvegur og heilsársvegur yfir Kjöl gæti orðið mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á öllu Norðurlandi. Flugsamgöngur eru svo kafli út af fyrir sig. Við hjá L – listanum ætlum að koma á beinu flugi frá Akureyri til London eða annarrar borgar í Evrópu sem er sjálf sterkur áfangastaður og gefur að auki fjölbreytta tengimöguleika. Það má til dæmis hugsa sér að þetta verkefni verði boðið út á hliðstæðan hátt og akstur strætisvagna á milli Akureyrar og Reykjavíkur. L-listinn vill að Akureyrarbær hafi beina aðkomu að því, ef þörf krefur, að bæta aðstöðu á Akureyrarflugvelli með stækkun flugstöðvarinnar, byggingu flughlaðs og gerð lóða fyrir flugtengda þjónustu.

Með öflugum flugsamgöngum fjölgar ferðamönnum og nauðsynlegt er að tryggja að innviðirnir séu í lagi, t.d. með því að aðgengi að helstu ferðamannastöðum verði tryggt allan ársins hring. Á Akureyri eru um 200 fyrirtæki í ferðaþjónustu. Það skiptir máli fyrir ferðaþjónustufyrirtækin að Akureyrarbær styðji við og skapi aðstæður til að ferðaþjónustan geti vaxið og dafnað enn frekar. Við hjá L – listanum viljum vinna ötullega að því að Akureyrarbær verði eftirsóknarverðasti áfangastaðurinn fyrir ferðamenn.

Háskólinn á Akureyri, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar útskrifa árlega mörg hundruð manns sem ganga beint inn í atvinnulífið hér í Eyjafirði og eru þar mikil vítamínsprauta. L – listinn vill standa vörð um þessar menntastofnanir og tryggja að þær geti áfram boðið fjölbreytt nám í hæsta gæðaflokki.

Í Ferðamálastefnu Akureyrar 2016-2026 kemur fram það sé mikilvægt að fjárfesta í hæfni starfsfólks sem starfar innan ferðaþjónustunnar. L – listinn vill efla enn frekar samstarf á milli menntastofnana á svæðinu með það að markmiði að fjölga menntuðum einstaklingum innan greinarinnar.

Tryggjum að áfram verði öflug uppbygging í atvinnulífi á Akureyri með því að kjósa L-Listann næsta laugardag.

Andri skipar 2. sæti og Hildur Betty 3. sæti á L – lista fyrir komandi bæjastjórnarkosningar.

UMMÆLI