Akureyri-Færeyjar

Auglýsa breytingu á deiliskipulagi nýrrar íbúðabyggðar

Auglýsa breytingu á deiliskipulagi nýrrar íbúðabyggðar

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar hefur samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir Holtahverfi norður. Helstu breytingar eru að áætlaðri skiptingu íbúðategunda (einbýli, par-/raðhús, fjölbýli) er breytt og gert ráð fyrir fleiri íbúðum í fjölbýli. Þá er gert ráð fyrir að hámarkshæð fjölbýlishúsa geti verið allt að fjórar hæðir.

Í haust kynnti Akureyrarbær tillögu að deiliskipulagi Holtahverfi norður þar sem kynnt var nýtt uppbyggingarsvæði í kringum Krossanesbraut, fyrir ofan og norðan við smábátahöfnina í Sandgerðisbót. Þá var gert ráð fyrir allt að allt að 280 íbúðum í blandaðri byggð fjölbýlishúsa, raðhúsa, parhúsa og einbýlishúsa.

„Eftir því sem vinna við deiliskipulag svæðisins hefur þróast hefur komið í ljós að áætluð skipting eftir húsategundum (einbýli, raðhús, fjölbýlishús) samræmist ekki raunverulegri eftirspurn og þá aðallega hvað varðar hlutfall íbúða í fjölbýlum,“ segir í greinargerð bæjarstjórnar.

Frestur til að gera athugasemdir við tillögurnar rennur út mánudaginn 1. febrúar 2021 og skal athugasemdum skilað skriflega til skipulagssviðs Akureyrarbæjar, Geislagötu 9, 3. hæð eða með tölvupósti (skipulagssvid@akureyri.is) þar sem nafn, kennitala og heimilisfang sendanda kemur fram.

Greinargerð bæjarins má finna hér.

UMMÆLI