Aukasýning á Sjeikspír eins og hann leggur sig

Mynd tekin á leiksýningunni Sjeikspír eins og hann leggur sig.

Aðeins 97 mínútur eftir

Vegna fjölda fyrirspurna hefur Leikfélag Akureyrar, í samvinnu við Sjeikfélag Akureyrar, ákveðið að bæta við aukasýningu á hinu sprenghlægilega gamanverki Sjeikspír eins og hann leggur sig! Það er einstaklega viðeigandi að tilkynna um þetta á meðan við fögnum afmæli sjálfs William Shakespeare, en skáldið hefði orðið 454 ára þann 23. apríl hefði það fundið æskubrunninn og leið til að lifa að eilífu. Sýningin mun því miður ekki heldur lifa að eilífu og er þetta því allra síðasta tækifæri til að sjá þessa fjörugu uppsetningu sem hefur hlotið einróma lof leikhúsgesta og gagnrýnenda.

Sýningin verður á föstudaginn næstkomandi og er hægt að tryggja sér miða hér.

Að uppsetningunni kemur blanda heimafólks og fólks sem hefur áður gert sig heimakomið á Akureyri. Í leikarahópnum eru Akureyringarnir Sesselía Ólafsdóttir, Vandræðaskáld, og Jóhann Axel Ingólfsson, sem er nýsnúinn aftur heim eftir að hafa lokið leiklistarnámi í New York. Auk þeirra er í leikarahópnum Benedikt Karl Gröndal, sem skemmt gestum Samkomuhússins í verkum eins og gamanleiknum Þetta er grín, án djóks og Pílu Pínu. Í leikstjórastólnum er svo Ólafur Egill Egilsson, sem sló heldur betur í gegn á fjölum Samkomuhússins þegar hann fór með hlutverk Fagin í Óliver! veturinn 2004-2005. Ólafur hefur notið mikillar velgengni sem leikstjóri, leikari og handritshöfundur. Nýverið leikstýrði hann m.a. Kartöfluætunum eftir Tyrfing Tyrfingsson og eigin leikgerð á verkinu Brot úr hjónabandi.

Sjeikspír eins og hann leggur sig! er 325. sviðsetning Leikfélags Akureyrar en sú fyrsta þar sem reynt er að komast í gegnum öll verk sjálfs Shakespeare á ævintýralegum hraða eða afturábak með galsa, leikhúsbrellum, söng og tónum.

UMMÆLI