Bæjarbúar tekið sviflínum opnum örmum

Bæjarbúar tekið sviflínum opnum örmum

Zipline Akureyri opnaði í Glerárgili fimmtudaginn 14. júlí síðastliðinn og Akureyringar hafa tekið vel í opnunina. Anita Hafdís Björnsdóttir, einn eigenda Zipline Akureyri, segir að bæjarbúar hafi tekið sviflínunum opnum örmum og að stanslaust rennerí af fólki hafi verið fyrstu dagana.

„Það bókaðist alveg upp um helgina svo að við ákváðum að skella inn aukaferð á sunnudaginn sem bókaðist upp á hálfríma. Núna erum við í óðaönn að undirbúa okkur fyrir verslunarmannahelgina og erum tilbúin að bæta inn fleiri ferðum til að anna eftirspurn. Við tökum bara 12 manns í hverja ferð, til þess að varðveita kósíheitin. Við viljum hafa þetta litlar og vinalegar ferðir og hafa upplifunina persónulega,“ segir Anita við Kaffið.is.

Fimm sviflínur voru settar upp í Glerárgili og er þetta lengsta sviflínuleið sem er nú í boði á Íslandi. Anita segir að þeir gestir sem hafi kíkt hingað til hafi verið himinlifandi með upplifunina.

„Fólk er svo ekki síður hrifið af náttúruperlunni sem Glerárgilið er en sviflínunum sjálfum. Ég vil meina að við höfum opnað leið inn í hálffalinn fjársjóð af náttúrufegurð með sviflínu brautinni okkar. Við erum að fá allskonar fólk á öllum aldri. Vinahópar, fjölskyldur, steggja- og gæsahópar, starfsmannateiti og afmæli. Fólk er svo allskonar, sumir eru sjúkir í spennuna, aðrir eru að ögra sjálfum sér. Sumir hafa prófað áður en flestir eru að fara í sviflínu í fyrsta sinn,“ segir Anita.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó