Akureyri-Færeyjar

Bæjarfulltrúar á Akureyri furða sig á fjöldanum við eldgosið: „Eiga reglurnar bara við hluta landsmanna?“

Bæjarfulltrúar á Akureyri furða sig á fjöldanum við eldgosið: „Eiga reglurnar bara við hluta landsmanna?“

Halla Björk Reynisdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri, segist ekki geta orða bundist vegna núverandi sóttvarnarreglna. Halla segist taka undir með þeim mörgu sem hafa tjáð sig um að þykja það undarlegt að fólk fái að fjölmenna að eldgosinu í Geldingardölum á sama tíma og lokað er í Hlíðarfjalli.

Sjá einnig: Sárt að horfa upp á auðar skíðabrekkur í Hlíðarfjalli á sama tíma og fólk fjölmennir að eldgosinu

„Á sama tíma og okkur landsmönnum er gert að halda okkur heima virða fjarlægðarmörk og búa okkur til „okkar páskaegg“ sem getur mest innihaldið 10 manns, rölta hundruð og jafnvel þúsundir manna saman til þess að skoða gosið og hanga í einum og sama kaðlinum. Ég gat reyndar ekki betur heyrt en að sóttvarnalæknir mæltist til þess að reynt væri að koma í veg fyrir þessa hópamyndun, en í það minnsta sér enginn ástæðu til þess að gera eitthvað í málinu,“ skrifar Halla á Facebook í dag.

Halla situr í stjórn Hlíðarfjalls en hún segir að þar sé auðveldlega hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð á milli einstaklinga.

„Það er eitthvað bogið við þessa mynd. Skiptir það máli að reglurnar séu virtar eða ekki? Eiga reglurnar bara við hluta landsmanna? Það er einhvern veginn erfitt að horfa upp á „útihátíðina“ í beinni,“ skrifar Halla.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson tekur í sama streng á Facebook síðu sinni í dag. „Ætlar þetta rugl engan enda að taka. Á sama tíma og sóttvarnaryfirvöld leggja upp línurnar fyrir landsmenn (a.m.k. suma) um fjarlægðarmörk, grímunotkun og 10 manna „páskaegg“ er á engan hátt brugðist við þar sem þúsundir koma saman dag hvern á nokkurs konar útihátíð. Ekki verður séð á þeim óteljandi myndum sem birtst hafa af svæðinu að fólk sé almennt að fara eftir settum reglum.“

„Á sama tíma er okkur Akureyringum líkt og öðrum gert að loka skíðastöðum til að koma í veg fyrir hópamyndanir. Hvers konar and……. vitleysa er þetta,“ skrifar Guðmundur Baldvin.

„Þetta er allt saman orðið stór furðulegt,“ skrifar Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins í Norðaust­ur­kjör­dæmi, við færslu Guðmundar.

UMMÆLI