Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir aðgerðir til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir aðgerðir til að bæta umferðaröryggi á Hörgárbraut

„Við leggjum á það mikla áherslu að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi allra vegfarenda á þessu svæði sem og öðrum svæðum í bænum. Óvarðir vegfarendur eiga aldrei að vera í hættu á gangbrautum og því þarf að bregðast við, enda er forgangsmál hjá okkur að auka hlutdeild gangandi og hjólandi í umferðinni,“ segir Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar í viðtali sem birtist á vef bæjarins.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á dögunum tillögur að úrbótum í samvinnu við Vegagerðina til að auka umferðaröryggi á Hörgárbraut milli Glerár og Undirhlíðar.

Sjá einnig: Telja undirgöng eða göngubrú ekki raunhæfan kost við Hörgárbraut

Íbúar í Holta- og Hlíðahverfi hafa ítrekað kallað eftir slíkum úrbótum en síðan árið 2016 hefur fjórum sinnum verið ekið á gangandi vegfarendur við Hörgárbraut.

„Þótt nýlega hafi verið gerðar mikilvægar úrbætur, svo sem að endurnýja og bæta við umferðarljósum, þá er talin ástæða til að taka málið enn fastari tökum og bæta öryggi óvarðra vegfarenda,“ segir á vef bæjarins.

Skipulagsráð lagði til við bæjarstjórn að strax á þessu ári yrði ráðist í fimm megin aðgerðir sem snúa einkum að því að lækka umferðarhraða og koma í veg fyrir að fólk aki á móti rauðu ljósi.

Ákveðið hefur verið bæta merkingar, setja upp skilti/broskarl sem sýnir raunhraða ökutækja og koma upp rauðljósa- og hraðamyndavél við gangbrautina við Stórholt. Þá er stefnt að því að endurskoða ljósatíma gönguljósa þannig að lengri tími líði frá því að þrýst er á hnapp og þar til ökutæki fá rautt ljós. Þar að auki er gert ráð fyrir að loka hjáleið frá Höfðahlíð inn á lóð N1 og beina ökumönnum frekar að hringtorginu við Undirhlíð.

Einnig hefur verið ákveðið að hefja undirbúning að nokkrum aðgerðum sem eru flóknari í framkvæmd og/eða krefjast skipulagsbreytinga, svo sem að framlengja miðeyju Hörgárbrautar og loka vinstribeygju að Stórholti og gera breytingar á gangbrautum við hringtorgið við Undirhlíð. Ennfremur var samþykkt að á næstu árum verði smám saman gróðursett tré á milli akreina, en slíkt er talið auka þéttbýlisupplifun ökumanna og draga úr ökuhraða.

Fleiri tillögur að aðgerðum eru ýmist á teikniborðinu eða í umræðunni. Sumar þeirra þurfa lengri undirbúning og aðrar eru ekki taldar raunhæfar að sinni. Hér má skoða tillögurnar í heild sinni.

„En þegar öllu er á botninn hvolft þá skiptir ekki síður máli að ökumenn taki mið af aðstæðum, virði hámarkshraða og hafi athyglina í lagi. Ef allir leggja sitt af mörkum og við vinnum saman þá næst góður árangur,“ segir Tryggvi Már.

UMMÆLI