Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir gjaldtöku á bílastæðum

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir gjaldtöku á bílastæðum

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum á þriðjudag nýja samþykkt fyrir bifreiðastæðasjóð Akureyrarbæjar sem og drög að gjaldskrá fyrir gjaldskyld bílastæði, bílastæðakort íbúa og bílastæðakort á fastleigusvæðum.

Tekin verða í notkun tvö gjaldsvæði þar sem í dag eru gjaldfrjáls klukkustæði og hefst gjaldtaka eftir áramót. Gjaldið er 200 kr. á klst. á gjaldsvæði 1 og 100 kr. á klst. á gjaldsvæði 2 (sjá mynd). „Svo eru 21 stæði fyrir hreyfihamlaða, 19 svokölluð græn stæði og svo eru þar til viðbótar um 600 gjaldfrjáls bílastæði í kringum miðbæinn, til dæmis norður við íþróttavöll, niður með Strandgötu og Hofi, suður við leikhús og svo framvegis,“ segir Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs bæjarins..

Gjald fyrir bílastæðakort íbúa verður 6.000 kr. á ári og gjald fyrir bílastæðakort á fastleigusvæðum verður 12.000 kr. á mánuði á gjaldsvæði 1 og 6.000 kr. á mánuði fyrir gjaldsvæði 2.

Bæjarráð samþykkti fyrr á þessu ári að taka upp gjaldskyldu á bílastæðum í miðbænum. „Markmiðin eru að bæta lífsgæði og skapa tækifæri fyrir fjölbreyttari notkun bæjarlands með því að stýra betur eftirspurn eftir bílastæðum, draga úr umferð, umferðartöfum, útblæstri og hljóðmengun,“ segir Andri.

Einnig eiga breytingarnar að auka umferðaröryggi fyrir aðra vegfarendur en þá sem eru á bíl með því að draga úr fjölda þeirra sem aka um og leita að lausum stæðum, svo og að styðja við verslun og fyrirtæki með því að auðvelda viðskiptavinum og öðrum að finna bílastæði. Þá eru breytingarnar í samræmi við samstarfssáttmála bæjarstjórnar, sem liður í að stefna að sjálfbærum rekstri bæjarins.

Nánari umfjöllun um málið má finna á vef Akureyrarbæjar með því að smella hér.


UMMÆLI