beint flug til Færeyja

Bakarís-fyrirlestur: Hvað segja tungumálin á skiltunum á Akureyri?

Bakarís-fyrirlestur: Hvað segja tungumálin á skiltunum á Akureyri?

Fimmtudaginn 24. október nk. kynnir Martina Huhtamäki, kennari við Háskólann í Helsinki, rannsóknir hennar og Väinö Syrjälä á tungumálslega landslaginu á Akureyri en þær beinast að því að skoða notkun tungumála út frá samfélagslegu sjónarhorni. Kynningin fer fram í Brauðgerðarhúsinu í verslunarmiðstöðinni við Sunnuhlíð og hefst kl. 16:00.

Textar eru ekki bara í bókum og á netinu, í kringum okkur á Akureyri er fullt af skiltum með textum, eins og búðarnöfn, götuskilti, auglýsingar og aðrar upplýsingar. Fyrir þá sem eru á ferðinni í bænum skiptir það máli á hvaða tungumáli skiltin eru. Eru skiltin á tungumáli sem fólk skilur? Að hverjum beinast skiltin og fyrir hverja eru skiltin? Hvaða hlutverk hafa ýmis tungumál á skiltum? Saman skapa öll skilti tiltekna ímynd staðarins.

Martina Huhtamäki safnaði gögnum með því að taka ljósmyndir í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð vorið 2021 og í göngugötunni og á Ráðhústorgi á jólunum 2023. Í kynningunni segir hún stuttlega frá helstu rannsóknarniðurstöðum og ræðir um skiltin og hvað þau segja.

Martina er dósent í sænsku og vinnur í Háskólanum í Helsinki. Hún er doktor í norrænum tungumálum og hefur m.a. rannsakað hljómfall í Finnlands-sænsku ásamt málslegu og öðru samspili í einkaþjálfun. Núna stýrir Martina verkefni um ensk tökuorð í norrænum tungumálum (PLIS). Hún átti heima á Akureyri og vann að rannsóknum í AkureyrarAkademíunni á árunum 2017 til 2021.

Bakarís-fyrirlestrarnir eru samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar og Brauðgerðarhúss Akureyrar. Markmið þeirra er að kynna verkefni sem fólk hefur unnið að hjá AkAk, bjóða upp á viðburði í Sunnuhlíð og gefa bæjarbúum tækifæri til að fræðast og spjalla um fjölbreytt viðfangsefni.

Öll hjartanlega velkomin!

Sambíó

UMMÆLI