Beint flug milli Akureyrar og Hollands

Beint flug milli Akureyrar og Hollands

Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel ætlar að bjóða flug til Akureyrar frá og með næsta sumri. Þetta kemur fram á Vísi í dag.

Uppsetning ILS-búnaðar á Akureyrarflugvelli verður lokið næsta sumar og það hafði mikil áhrif á ákvörðunina. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, segir að þetta muni hafa jákvæð áhrif á allt Norðurland. Þessi áform endurspegli einnig þörfina á uppbyggingu flugvallarins.

„Við þurfum að dreifa ferðamönnum betur um landið með því að opna fleiri gáttir inn í landið, bæði til að nýta betur þá fjárfestingu sem til er í ferðaþjónustu vítt og breitt um landið auk þess að vernda viðkvæma íslenska náttúru,“ segir Ásthildur á Vísi.

Markaðsstofa Norðurlands og Flugklasinn Air 66N hafa leitt verkefnið og nú standa yfir viðræður við ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurlandi um samstarf við ferðaskrifstofuna og þjónustu við farþega. Ljóst er að slíkar ferðir kalla á ýmis konar þjónustu, eins og komið hefur í ljós með ferðum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break. Áhersla ferðaskrifstofunnar verður bæði á ferðalög þar sem ferðamenn keyra sjálfir á milli staða og hópaferðalög með fararstjóra. Sú fjölbreytni þýðir betri dreifingu þessara gesta um allt Norðurland, allt frá Hvammstanga til Langaness.

Voigt Travel er ferðaskrifstofa í Hollandi með 30 ára reynslu af ferðum fyrir Hollendinga á norðlægar slóðir, þ.á.m. til Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.

Verkefnastjóri Flugklasans Air 66N  hafði fyrst samband við Voigt Travel í apríl 2017 og kynnti þar möguleikann á því að fljúga beint til Akureyrar. Það var svo núna í sumar sem hjólin fóru að snúast af alvöru og síðustu mánuði hefur verið unnið mjög markvisst að undirbúningi verkefnisins. Svona verkefni þurfa mikinn undirbúning og hafa oftast langan aðdraganda fram að fyrstu flugferð.

„Það er ánægjulegt að geta tilkynnt um þetta, því hér er afrakstur vinnu síðustu ára að koma í ljós. Það er ljóst að beint millilandaflug á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break frá Bretlandi til Akureyrar hefur haft jákvæð áhrif á þróun millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og vakið athygli fleiri ferðaskrifstofa og flugfélaga á áfangastaðnum,“ segir Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri Flugklasans Air 66N á heimasíðu Markaðsstofu Norðurlands.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó