Björgunarsveitarfólk frá Súlum hjálpaði til við gæslu í GeldingadölumMyndir: Súlur, björgunarsveitin á Akureyri á Facebook

Björgunarsveitarfólk frá Súlum hjálpaði til við gæslu í Geldingadölum

Hópur félaga í Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, fór að gosstöðvunum í Geldingadölum um páskahelgina. Alls tóku 13 manns frá Súlum þátt í gæslu á svæðinu yfir helgina. Farið var á tveimur bílum með einn Buggy bíl aukalega.

„Verkefnin voru fyrst og fremst gæsla og eftirlit á gönguleiðum og gossvæði. Laugardagurinn var mjög rólegur enda var svæðinu lokað vegna slæmrar veðurspár. Þrátt fyrir það voru einhverjir sem ekki höfðu heyrt af því og mættu á svæðið. Allir tóku því samt vel þegar þeim var bent á lokunina. Sunnudagurinn var líflegri þótt ekki væri jafn mikið af fólki á ferðinni og dagana á undan. Loka þurfti aðal gönguleiðinni vegna mengunar og þurfti að leiðbeina fólki út úr mestu menguninni. Veðrið var betra en á laugardeginum en mjög kalt,“ segir í tilkynningu frá Súlum.

Þar segir að allt hafi gengið vel fyrir sig og að fólk sem mætti á svæðið hafi almennt verið meðvitað um aðstæður, með nokkrum undantekningum þó.

Hópurinn var á leið heim í gær þegar fréttir bárust af því að ný sprunga hefði opnast á svæðinu. Sérfræðingar segja að svæðið sé töluvert hættulegra í augnablikinu en áður. Svæðið var rýmt eftir að sprungan opnaðist og verður fundað um framhaldið í dag.

UMMÆLI