Borgin mín – Kaupmannahöfn

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við ræðum við fráflutta Akureyringa um borgir sem þau búa í víðsvegar um heiminn. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Róshildur Arna Ólafsdóttir býr í Kaupmannahöfn þar sem hún er í skiptinámi í Sálfræði.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég flutti til Kaupmannahafnar í lok ágúst og verð hér fram að jólum. Ég er hérna í skiptinámi við KU frá Háskóla Íslands þar sem ég læri sálfræði. Ástæðan fyrir því að ég valdi Köben fram yfir aðra staði er fyrst og fremst sú að borgin hefur alltaf heillað mig mikið en mér leist líka mjög vel á skólann og áfangana sem hann býður upp á.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? Er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Ég leigi herbergi í íbúð hjá danskri konu. Íbúðin er staðsett á Islands brygge sem er ótrúlega krúttlegt hverfi. Ég er að borga um það bil það sama fyrir herbergi hér og ég borga fyrir stúdíoíbúð á háskólagörðunum heima svo ég myndi segja að köben væri frekar sambærileg í leiguverði. Það fer þó mjög eftir hverfi sem leigt er í.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Ég myndi segja að það væri aðeins ódýrara að lifa í Kaupmannahöfn heldur en á Íslandi. Matur er til dæmis heldur ódýrari en heima, bæði á flestum veitingastöðum og í kjörbúðum og áfengi er mun ódýrara. Ýmis þjónusta er svo aðeins dýrari eins og til dæmis að fara í klippingu.

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Frægustu kennileiti borgarinnar eru líklega Litla Hafmeyjan, Rósenborgarkastalinn, Tivoli, Nyhavn, Amalienborg og Botanisk Have ásamt mörgum fleirum. Mesti túristastaðurinn fyrir íslending er líklega Strikið en ég hef mjög sjaldan labbað þar án þess að heyra íslensku.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Í fyrstu vikunni minni hérna í Kaupmannahöfn buðu nokkrir samnemendur mínir úr skólanum okkur skiptinemunum með sér í skoðunarferð um Sydhavn sem er hverfi í borginni. Þau fóru með okkur á stað sem heitir Sydhavntippen en það er ótrúlega ólíkt öllum öðrum stöðum í Köben og til að mynda sáum við bæði villtar kindur og lamadýr á röltinu þar um. Við fórum í byrjun september svo það var líka endalaust af eplatrjám og berjarunnum sem maður gat fengið sér af sem var mjög skemmtilegt. Ég mæli sterklega  með að fara þangað ef maður vill breyta aðeins til og sjá fallega villta náttúru innan um borgina.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Ég er ótrúlega hrifin af Brunch sem hentar vel í Köben þar sem það er fullt af stöðum sem bjóða upp á frábæra Brunch matseðla. Uppáhaldsstaðurinn minn er klárlega Mad&Kaffe en þar velur maður sér ýmist 3, 5 eða 7 brunch rétti af matseðli sem eru hver öðrum betri.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Ég kann því miður ekki reiprennandi dönsku en ég get pantað á veitingastöðum og í búðum og átt einföld samtöl. Ég hafði háleit markmið um að koma heim til íslands altalandi dönsku en flestir vinir mínir eru aðrir skiptinemar frá öðrum löndum sem gerir það að verkum að enskan er alltaf töluð og því fæ ég litla sem enga æfingu í dönsku. Danskan er þó okkur íslendingum kunnug og alls ekki svo erfið.

Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Satt best að segja eru danir frekar líkir okkur íslendingum svo ég fékk ekki mikið sjokk. Mér finnst samt ótrúlegt hversu afslappað andrúmsloft er í Köben miðað við hversu margir búa hérna.

Hvað einkennir heimamenn?

Danir eru almennt afslappaðir og mjög skemmtilegir. Þeir drekka líka mjög mikið af bjór.

Helstu kostir borgarinnar?

Mér finnst frábært hvað það er alltaf mikið um að vera í borginni en samt helst andrúmsloftið afslappað og huggulegt. Hjólamenningin er frábær og svo er samgöngukerfið líka mjög gott miðað við á Íslandi svo það er auðvelt að komast hvert sem er.

Helstu gallar borgarinnar?

Mér detta hreinlega engir gallar í hug, ég er einstaklega ánægð með Köben.

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Já ég gæti algjörlega hugsað mér að setjast að hérna til frambúðar og er strax farin að skoða það að fara í framhaldsnám hérna.

Sambíó

UMMÆLI