Börn á vergangi – Útivist barna á óafgirtu svæði og gluggalaus kjallari

Halldór Arason skrifar:

Ég heiti Halldór og er foreldri barns á fimmta ári. Eins og flestir Akureyringar hafa tekið eftir er útlit fyrir að um 40 börn séu að flytja á svæðið. Það eru gleðifréttir. Hinsvegar er sú staða komin upp að ekki er pláss á leikskólum bæjarins til þess að taka við þeim, þrátt fyrir lokun hartnær 100 plássa undanfarið ár. Já, undanfarið ár hefur Akureyrarbær lokað um 60 plássum og stefnir nú að því að loka 40 í viðbót. Og það er komið upp vandamál því plön ganga ekki eftir. Hvað er þá hægt að gera, hvað geta bæjaryfirvöld tekið til bragðs? Á bæjarstjórnarfundi þann 25. apríl síðastliðinn bókaði bæjarstjórnin eftirfarandi

Bæjarstjórn Akureyrar hefur ákveðið að skoða til hlítar leiðir sem áður hafa verið ræddar til að nýta húsnæði grunnskóla Akureyrarbæjar og fagþekkingu leikskólastigsins með því að setja upp tilraunaverkefni með stofnun 5 ára deildar í húsnæði grunnskóla með sambærilegum hætti og gert hefur verið með góðum árangri í Naustaskóla. Með þessu opnast leiðir til að innrita fleiri börn í leikskólana. Þessari vinnu verður flýtt þannig að hægt verði að meta kostnað við aðgerð sem þessa og taka ákvörðun sem fyrst. Það er von okkar að víðtæk sátt náist um þessa leið.

Fræðslusvið fékk boltann og var hóað í fundi með foreldrum barna af Krógabóli og Hulduheimum Koti, sem myndu væntanlega óska eftir skólavist í Glerárskóla og Síðuskóla þegar þar að kæmi. Starfsfólk fræðslusviðs gat fá svör veitt, þar sem ekkert hefur verið ákveðið. Fyrir utan þá staðreynd að kjörnir fulltrúar gátu ekki séð sér fært að mæta á fundinn vegna Kínaferðar, stóð það helst uppúr á fundinum að A) dóttur minni er ætlað að vera í útivist á óafgirtu svæði við hliðina á götu með tvo starfsmenn á vakt, og B) henni er ætlað að kúldrast í kjallara Síðuskóla í hartnær gluggalausu herbergi.

Á fundinum komu upp nokkrar hugmyndir um lausnir, og fór ég m.a. á fund á fræðslusviði daginn eftir fundinn til þess að kynna hugmyndir mínar. En er það hlutverk mitt, sem foreldri barns, að koma með lausn á vandamáli sem bærinn hefur skapað sér sjálfur? Það situr í mér að ég skuli geta sagt af eða á með þessa ætlan bæjaryfirvalda, ábyrgðin er mín. Með öðrum orðum hefur Akureyrarbær ákveðið að setja þá ábyrgð á hendur foreldra fimm ára barna að ákveða hvort það muni vera pláss á leikskólum fyrir þau 40 börn sem eru að koma til bæjarins. Já, bærinn tekur ekki ábyrðina heldur setur hana á mig, foreldri. Er það eðlilegt?

Þessi pistill er aðsend grein.

UMMÆLI