Brýn verkefni blasa við

Þórunn Egilsdóttir skrifar:

Nú þegar endurskoðun samgönguáætlunar er hafin blasir við að verkefnin eru næg enda víða uppsöfnuð þörf.

Ríkisstjórnin hefur metnað í að ráðast í brýn samgönguverkefni um land allt og í stjórnarsáttmála kemur fram að hraða verði nauðsynlegri uppbyggingu í vegamálum og öðrum mikilvægum samgönguinnviðum.

Samgönguáætlun á að mæta þörfum íbúa og atvinnulífs á hverjum tíma. Faglegar greiningar liggja ávallt að baki slíkri áætlun og það er mikilvægt að horfa til þess að allir komist ferða sinna á öruggan hátt. Lágmarksaðgengi þarf að vera að nauðsynlegri, opinberri grunnþjónustu og bæta þarf aðgengi og hreyfanleika í samgöngukerfinu fyrir fólks- og vöruflutninga innan og á milli svæða. Síðustu ár hafa þéttbýliskjarnar stækkað og samhliða því orðið miklar breytingar á byggða- og atvinnusvæðum. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að vinnusóknarsvæðum í samræmi við sóknaráætlun landshluta og leita leiða við að stytta ferðatíma og stækka svæði.

Annað brýnt forgangsmál er að vinna að því að gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna. Góðar og greiðar samgöngur innanlands og til útlanda eru forsenda þess að mannlíf og atvinnulíf geti vaxið og dafnað. Uppbygging og rekstur samgangna á að stuðla að því að efla atvinnulíf. Sé horft til ferðamannaiðnaðarins er mikilvægt að opna fleiri gáttir inn til landsins til að ná betri dreifingu ferðamanna um landið allt. Akureyrarflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki í því sambandi. Nýlega ályktaði SAF að mikilvægt sé að ráðast í að stækka flughlað og flugstöðina á Akureyri svo hægt sé að efla millilandaflug um flugvöllinn. Ég tek undir það og tel mikilvæg sóknarfæri felast í þeim aðgerðum.

Nú er úrlausnarefnið að fjármagna verkefnin, forgangsraða og framkvæma.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi

UMMÆLI