KIA

Bryndís Rún hættir vegna heilsufarsvandamála

Bryndís Rún hættir vegna heilsufarsvandamála

Sundkonan og Akureyringurinn Bryndís Rún Hansen hefur ákveðið að hætta keppni í sundi vegna heilsufarsvandamála sem hún hefur verið að glíma við undanfarin þrjú ár. Þetta kemur fram á fréttavefnum Akureyri.net.

Bryndís Rún er margfaldur Íslandsmethafi og var til að mynda kjörin íþróttamaður Akureyrar árin 2009, 2010 og 2011. Þá var hú kjörin íþróttakona Akureyrar árið 2016.

Í samtali við Akureyri.net segir Bryndís að hún hafi verið að glíma við allskonar heilsuvandamál undanfarin þrjú ár og því hafi hún ákveðið að hætta.

„Á þeim tíma hef ég reynt allt til þess að finna leið til að geta haldið áfram að æfa og keppa; harkaði bara af mér og hélt áfram, sem ég hefði ekki átt að gera, og bætti bara í ef eitthvað var, því það var það eina sem ég þekkti. Ég gerði mér engan veginn grein fyrir því á hversu slæmum stað ég var allan þennan tíma, bæði líkamlega og andlega. Það er skrítið að segja það, en Covid heimsfaraldurinn hjálpaði mér til að átta mig á því að það er annað mikilvægara í lífinu en sund. Ég ákvað að kominn væri tími til þess að setja sjálfa mig í fyrsta sæti,“ segir Bryndís við Akureyri.net.

Á fréttavefnum Akureyri.net má nálgast ítarlega umfjöllun um ákvörðun Bryndísar og glæsilegan feril hennar í sundinu.

UMMÆLI