Prenthaus

Brynjar Ingi og Aldís Kara íþróttafólk Akureyrar 2021Myndir: Skautasamband Íslands/Mbl.is - Hulda Margrét

Brynjar Ingi og Aldís Kara íþróttafólk Akureyrar 2021

Íþróttabandalag Akureyrar valdi í kvöld íþróttakarl og íþróttakonu Akureyrar fyrir árið 2021. Þar voru knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason úr KA og Aldís Kara Bergsdóttir skautakona SA sem hlutu þá titla.

Þetta var í fyrsta skipti sem Brynjar Ingi hlýtur þennan titil en þriðja skiptið sem Aldís Kara var kjörin íþróttakona Akureyrar. Alls voru 32 íþróttamenn tilnefndir, 17 íþróttakarlar og 15 íþróttakonur. Af þeim stillti stjórn Afrekssjóðs Akureyrar upp tíu tilnefningum fyrir konur og tíu fyrir karla sem kosið var á milli.

Eftirfarandi kemur fram í til­kynn­ingu frá ÍBA um íþrótta­fólk árs­ins:

„Al­dís Kara, sem var val­in skauta­kona árs­ins 2021 hjá Skauta­sam­bandi Íslands og íþrótta­kona Skauta­fé­lags Ak­ur­eyr­ar, setti Íslands­met í janú­ar 2021 þegar hún hlaut 123.44 stig á RIG21. Í haust keppti Al­dís á tveim­ur ISU Chal­lenger Series mót­um. Með góðum ár­angri á þess­um mót­um vann Al­dís Kara sér inn keppn­is­rétt á Evr­ópu­meist­ara­móti í list­skaut­um, fyrst ís­lenskra skaut­ara.

Á Evr­ópu­meist­ara­mót­inu, sem fór fram í Eistlandi í janú­ar 2022 hafnaði Al­dís Kara í 34. sæti. Al­dís Kara lauk ár­inu 2021 með því að slá eigið Íslands­met á Íslands­meist­ara­mót­inu sem haldið var í nóv­em­ber. Þar hlaut hún 136.14 stig sem er jafn­framt hæstu stig sem gef­in hafa verið í Seni­or flokki á Íslandi.

Brynj­ar Ingi er íþrót­ta­karl Ak­ur­eyr­ar í fyrsta skipti. Brynj­ar Ingi er upp­al­inn knatt­spyrnumaður úr KA og var val­inn, annað árið í röð, íþrót­ta­karl KA í byrj­un árs. Brynj­ar Ingi spilaði 11 leiki fyr­ir KA sem hafnaði í 4. sæti í efstu deild karla 2021.

Frammistaða Brynj­ars Inga vakti mikla at­hygli og í júlí var Brynj­ar Ingi keypt­ur til Lecce í ít­ölsku B-deild­inni. Með fram­göngu sinni vann Brynj­ar Ingi sér inn fast sæti í A-landsliði karla á ár­inu, þar sem hann spilaði 10 A-lands­leiki og skoraði tvö mörk. Í lok árs 2021 færði Brynj­ar Ingi sig um set, frá Ítal­íu til norska úr­vals­deild­arliðsins Vålerenga.“

Við óskum þeim innilega til hamingju með titilinn og vonumst eftir áframhaldandi velgengni!

UMMÆLI

Sambíó