Busun MA ekki lengur í höndum nemenda

Menntaskólinn á Akureyri er ein af elstu menntastofnunum landsins. Mynd: ma.is.

Kaffið greindi frá því í gær að nemendur í Menntaskólanum á Akureyri óttuðust að busun nýnema í skólanum væri að detta niður. Þannig höfðu nemendur fjórða bekkjar barist fyrir því að busunin fengi að halda sér áfram að einhverju leyti og vildu endilega mynda tengsl við nýnemana, eins og tíðkast hefur í skólanum í áratugi.

Kaffið hafði samband við Jón Má Héðinsson, skólameistara í Menntaskólanum á Akureyri, og fékk að vita hvernig busunin hefði farið fram í ár og hver örlög hennar yrðu í framhaldinu, þá sérstaklega þegar nýlegar breytingar um þriggja ára kerfi í skólanum verður algjörlega tekið yfir.

Jón Már segir að það hópefli sem þarf að eiga sér stað innan bekkjanna þurfi að vera markvissara núna en áður hefur er verið en MA hefur ávallt verið með bekkjarkerfi. Það er markmið kennara og stjórnenda að það myndist traust á milli nemenda og í ár var busunin framkvæmd með breyttu sniði en áður. Þá tóku kennarar og stjórnendur meiri stjórn en áður í busuninni og héldu nýnemadag á Hömrum, meðan nemendur fjórða bekkjar dvöldu enn á Króatíu í útskriftarferð sinni.

Hvað leggst af og hvað verður áfram?
Það hefur lengi vel verið í höndum nemenda að sjá um busun nýnema og það er þá fjórði bekkur sem stendur fyrir því og kallar sig Böðla og nýnemana Busa. Jón Már telur það líklegt að fjórði bekkur, og síðan í framhaldinu þriðji bekkur, muni detta svolítið út úr þessu fyrirkomulagi.

,,Við ætlum að reyna að blanda okkur meira, kennarar og námsráðgjafar, í þetta til þess að 1.bekk líði betur, þannig breytist það að við felum nemendum þetta eins mikið og hefur verið. Við tökum meiri ábyrgð á því að taka á móti nýjum nemendum þó svo að nemendur verði eitthvað með okkur í þessu. Þannig er þetta meira undir stjórn skólans.“

Jón Már Héðinsson, Skólameistari Menntaskólans á Akureyri.

Hann segist síður eiga von á því að tengslin milli fjórða og fyrsta bekkjar haldi sér eins og hefur verið þegar busunin er ekki lengur í höndum nemenda. Hann segir Böðla/Busa fyrikomulagið ekki vera að virka eins vel og annað sem nemendur eru að gera.
Hann segir þó að tengslin milli bekkja verði ekki alveg rofin með nýju fyrirkomulagi.

,,Tengslin verða áfram með einhverjum hætti, en ekki þannig að það sé parað saman bekk og bekk eins og hefur verið hjá fyrstu- og fjórðu bekkingum. Á næsta ári verða líka tveir árgangar, þriðji og fjórði bekkur á sama tíma, sem eiga að taka á móti nýnemum og þá brotnar þetta allt saman upp. Þá þurfum við líka að vera með lausnir á bæði brautskráningu og hvernig útskriftarferðinni verði háttað fyrir þarnæsta ár. Við erum ekki alveg komin á þá blaðsíðu en samt komin að því að ræða hana. Þá er alveg augljóst að skólinn sjálfur, kennarar og starfsmenn, taka meiri þátt en áður,“ segir Jón Már.

Jón Már segir að fjórði bekkur í ár hafi staðið sig til fyrimyndar í skipulagningu busunarinnar og hafi sett sér skýrar og strangar reglur um hvernig þeir vildu láta þetta allt fara fram. Þau hittu fyrstu bekkinga og kenndu þeim söngva og dansa og héldu danssýningu, sem meðal menntskælinga er betur þekktur sem Busasirkusinn. Fjórðu bekkingar eru ánægðastir með að sá liður busunarinnar hafi ekki dottið út og vona að hann haldi sér áfram.

UMMÆLI