beint flug til Færeyja

Byggja nýtt hjúkrunarheimili fyrir 60 íbúaNýja hjúkrunarheimilið verður byggt við hlið Lögmannshlíðar. Mynd: Dvalarheimilið Lögmannshlíð / Akureyrarbær.

Byggja nýtt hjúkrunarheimili fyrir 60 íbúa

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar hafa undirritað samning um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis. Hjúkrunarheimilið verður við hlið dvalarheimilisins Lögmannshlíðar, við Vestursíðu 9 á Akureyri.

Áætlað er að heimilið verði tilbúið til notkunar í lok árs 2023 en þar með fjölgar hjúkrunarrýmum á Akureyri úr 170 í rúmlega 230. Samkvæmt mati heilbrigðisráðuneytisins er skortur á hjúkrunarrýmum á Akureyri og fyrirsjáanlegt að þörf fyrir fleiri rými aukist hratt á næstu árum.

Ánægjulegt að sjá stór skref stigin í bættri þjónustu við aldraða

„Það er afskaplega gleðilegt að samstarf ráðuneytisins og Akureyrarbæjar um þetta mikilvæga verkefni liggi nú fyrir skjalfest með samningi. Það er fátt ánægjulegra en að sjá stór skref stigin í átt að aukinni og bættri þjónustu við aldraða. Akureyrarbær hefur sinnt þeim málum afar vel, bæði við aldraða heima og á hjúkrunarheimilum og ég veit að svo mun verða áfram“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Alútboð eykur hagkvæmni og styttir framkvæmdatíma

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er um þrír milljarðar króna sem skiptist þannig að 85% greiðast úr ríkissjóði en Akureyrarbær greiðir 15%.
Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdina á grundvelli alútboðs þar sem reynslan sýnir að sú leið getur stytt framkvæmdatíma og leitt til meiri hagkvæmni, eða allt að 10% lægri stofnkostnað en ef farin væri hefðbundin leið opinberra framkvæmda. Þetta felur í sér að þeir sem vilja vinna verkið bjóða í skilgreinda heildarupphæð þar sem jafnframt liggur fyrir ýtarleg þarfalýsing sem þarf að uppfylla. Teymi bjóðenda sem skipuð eru hönnuðum og verktökum og valin á grundvelli forvals, leggja síðan fram tillögur sem metnar eru innbyrðis út frá gæðum.

Sambíó

UMMÆLI