Davíð Máni gefur út nýtt lagMynd/Andrés Rein Baldursson

Davíð Máni gefur út nýtt lag

Akureyrski tónlistarmaðurinn Davíð Máni, sem þekktastur er fyrir störf sín í hljómsveitinni Miomantis sem Kaffið ræddi við um árið, hefur sent frá sér sitt fyrsta lag undir eigin nafni. Lagið ber heitið „Pool Of Sorrow“ og kom út föstudaginn 30. maí síðastliðinn.

„Pool Of Sorrow“ er fyrsta lag af væntanlegri sólóplötu Davíðs, „The Mancave Tapes“, sem kemur út þann 11. júlí næstkomandi. Hugmyndina að plötunni fékk Davíð árið 2023 eftir að hafa heyrt lag með Tame Impala, upptökur hófust síðan í febrúar á þessu ári í samstarfi við upptökustjórann Hallgrím Jónas Ómarsson.

Davíð semur lagið sjálft ásamt vini sínum, Enok Evusyni, sem samdi textann en verkið var samið þegar Davíð var um 15 ára gamall. „Lagið fjallar um mann sem hefur allt og er mjög ríkur, en missir allt með peningaeyðslu og endar í sjónum, ekki byggt á sannsögulegum atburðum,“ segir Davíð sem sá sjálfur um undirspil á laginu en fékk til liðs við sig tónlistarmanninn Ara Orrasson til að syngja bakraddir.

Lagið er nú aðgengilegt á helstu streymisveitum. Einnig hefur verið gefið út tónlistarmyndband við lagið sem unnið var af Sveini Trausta Sveindísarsyni, leikari í myndbandinu er Ólafur Sigurðsson.

Hér má finna lagið á Spotify:

Hér er tónlistarmyndbandið:

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó