Dósent við HA fær hæsta styrk úr Byggðarannsóknarsjóði

Margrét Hrönn Svavarsdóttir. Mynd: Háskólinn á Akureyri.

Margrét Hrönn Svavarsdóttir, dósent við hjúkrunarfræðideild HA, hlaut hæsta styrk úr Byggðarannsóknasjóði til verkefnisins Lífsstíll, áhættuþættir og sjálfsumönnun einstaklinga með kransæðasjúkdóm (KRANS rannsóknin). Styrkurinn nemur 3,5 mkr. Þetta kemur fram á heimasíðu Háskólans á Akureyri.

Markmið rannsóknarinnar er m.a. að skoða lífsgæði, heilsulæsi og sjálfsumönnun sjúklinga, þekkingu þeirra á sjúkdómnum og fræðsluþarfir. Skoðað verður hvort einstaklingar í dreifbýli fái þá endurhæfingu, fræðslu og stuðning sem þeir þurfa til að lifa með sjúkdómnum og takast á við afleiðingar hans og á hvern hátt best er að koma til móts við þarfir þessa hóps. Einnig verður skoðað hvernig heilbrigðiskerfið uppfyllir þarfir einstaklinga á landsbyggðinni fyrir fræðslu og hvernig þeim gengur að takast á við lífsstílsbreytingar, samanborið við einstaklinga í þéttbýli.

Í verkefnislýsingu kemur fram að kransæðasjúkdómar eru algengasta dánarorsökin hér á landi og því sé fræðsla og stuðningur við þennan sjúklingahóp mikilvægur.
Tilkynnt var um styrki úr Byggðarannsóknasjóði á ársfundi Byggðastofnunar þann 25. apríl. Alls fengu fjögur verkefni styrk.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó