Ég er kennari.

Ég er kennari.

Sóley Kjerúlf Svansdóttir skrifar

Að baki þess liggja rúmlega 7 ár í Háskólanámi.

3 ár í grunnnámi, 2 ár í meistaranámi og tvær diplómur. Auk þess er ég að klára 15 einingar í stjórnunarnámi og hef setið óteljandi klukkutíma í sí- og endurmenntun til að sérhæfa mig á mínu sviði, fá aukin réttindi og leyfi til að framkvæma ýmsar skimanir og get haldið námskeið fyrir aðra. Ég bý til námsefni, kennsluáætlanir og námskrár. Allt einstaklingsmiðað. Ég er líka tengiliður farsældar barna með öllu sem þarf að vita til að sinna því hlutverki. Ég er sérfræðingur.

Ég er rosalega heppin. Ég starfa í leikskóla þar sem fagmenntun er um 50%, allir stjórnendur og sérkennarar eru kennarar. Á launaskrá eru að auki 3 kennaranemar. Hinn helmingurinn er gríðarlega flottur hópur af reynsluboltum sem hafa margir unnið í tugi ára með börnum og myndu fljúga í gegnum starfshæfnimat. Þetta er dýrmætt og alls ekki sjálfgefið þó það ætti að vera það. Samkvæmt lögum á ⅔ stöðugilda að vera kennari. Er þá hægt að segja að börnum sé mismunað með því að vera í mínum leikskóla en ekki þeim þar sem hlutfall fagmenntunar er lágt, mikil starfsmannavelta og jafnvel margir sem ekki geta tjáð sig á íslensku?

Ég er rosalega heppin. Í starfi mínu líður mér oft eins og rokkstjörnu. Þannig taka börnin ykkar á móti mér, ég skal lofa ykkur að það er varla til betri tilfinning í vinnunni. Ég þekki á hverju ári um 90-100 börn svo náið að ég get lýst styrkleikum hvers og eins, gefið þeim aukin námstækifæri og sérhæfð einstaklingsmiðuð markmið og veitt foreldrum þeirra og kennurum ráðgjöf við hæfi. Við getum sinnt börnum með ýmis frávik og fötlun að fullu með sérhæfðum úrræðum. Það er ekki gefins, ekki auðvelt og svo sannarlega ekki sjálfsagt. Þó það ætti að vera það og lögum samkvæmt eigum við að veita menntun án aðgreiningar og uppfylla barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Er þá hægt að segja að það sé verið að mismuna börnum því þetta er alls ekki raunin í öllum skólum?

Ég er heppin. Á mínum leikskóla höfum við aldrei þurft að grípa í fáliðunarstefnuna. Við höfum aldrei þurft að senda börn heim vegna starfsmannaskorts. Er þá hægt að segja að það sé verið að mismuna börnum því það er algjör undantekning innan leikskólasamfélagsins í dag?

Ef svarið er já við einhverjum af þessum spurningum þá þurfa allir foreldrar að stíga upp og styðja kennara í baráttu sinni þannig að öll börn fái menntun við hæfi, ekki bara sum.

Ég er sorgmædd. Sérhæfing mín, vinna og virðing er ekki metin. Samfélagsleg umræða um fagstétt mína er fyrir neðan alla virðingu og gerir mig virkilega sorgmædda. Er menntun barna ykkar ekki meira virði en þetta? Er leikskólastarfsfólkið sem knúsar, huggar, fæðir, svæfir, snýtir, menntar, þroskar, eflir, styrkir, mætir og er til staðar fyrir það dýrmætasta sem þú átt, ekki meira virði en þetta? Kennarasambandið er þetta fólk. Með því að tala niður til sambandsins ertu að tala okkur niður. Ég vil kenna börnunum ykkar að bera virðingu fyrir öllum og að orð meiða. Ég vil kenna börnunum ykkar að efna loforð sín og að maður gerir það sem maður segist ætla að gera og á samkvæmt lögum að gera. Ég vona að þú gerir það líka.

Ég styð þá sem eru að taka á sig það gríðarlega erfiða skref að fara í verkfall fyrir mína hönd. Það er ekki auðvelt. Til að koma í veg fyrir verkfall kærið þá sem eiga það skilið, þá sem efna ekki loforð sín, þá sem raunverulega eru að brjóta lög daglega, þá sem setja okkur upp við þennan vegg að þurfa berjast fyrir okkar réttindum. Það eru ekki þeir sem standa barninu þínu næst og vilja allt fyrir það gera. Ég kenni börnunum ykkar um réttindi þeirra en ég vil berjast fyrir mínum réttindum svo öll börn fái þessi sjálfsögðu réttindi sem er menntun. Ég vona að þú viljir líka berjast fyrir því og setjir áhersluna á þann stað sem hún á heima, og það er stuðningur við kennara í kjarabaráttu þeirra.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó