Raftónlistarmaðurinn Agnar Forberg, sem gengur undir listamannanafninu Spacement, gefur út nýja plötu næsta föstudag, þann 28. febrúar. Platan heitir ‚Kærleikur og kvíði‘ og er önnur plata hans. Í tilefni þessa verða haldnir útgáfutónleikar í Menningarhúsinu Hofi sama kvöld.
Fimm ár hafa liðið frá því að Spacment gaf út sína fyrstu plötu, „Young vision,“ en sú plata var samvinnuverk með tónlistarmanninum NÓRA. Kærleikur og kvíði er því fyrsta sóló plata Agnars. Fréttaritari Kaffisins tók Agnar tali og ræddi við hann um nýju plötuna og tónlistina almennt.
Agnar, 22 ára, býr fyrir sunnan þessa dagana en er með djúpar rætur hér fyrir norðan. Í gegnum ömmu sína rekur hann ættir fram fjörðinn, nánar tiltekið á Rútsstaði í Eyjafjarðarsveit. Afi hans er aftur á móti Akureyringur og þar er Agnar sjálfur uppalinn. Fimm ára gamall flutti hann til Akureyrar með foreldrum sínum og bjó hér þar til hann var tvítugur.
Með tónlist í blóðinu
Það var einmitt í gegnum foreldra sína sem Agnar fór fyrst að hafa áhuga á tónlist: „Mamma og pabbi eru bæði tónlistarfólk. Mamma er sellóleikari og pabbi er tónskáld, þannig ég hef alltaf verið í kringum tónlist og hef æft á þónokkur hljóðfæri. Ég byrjaði að fikta við að semja tónlist fyrst í tölvunni hans pabba þegar ég var sjö ára, fékk síðan mína eigin tölvu þegar ég var þrettán ára og þá kviknaði mikill áhugi.“
Síðastliðin ár hafur Agnar grafið dýpra í tæknilegu hliðina á tónlist, til viðbótar við að semja sína eigin. Hann útskrifaðist til að mynda nýlega úr hljóðtækninámi frá Stúdíó Sýrlandi.
Tónlistin sem Spacement hefur gefið út til þessa hefur verið mjög fjölbreytt, en það endurspeglar eflaust fjölbreyttan tónlistarsmekk Agnars sjálfs: „Þeir tónlistarmenn sem hafa haft mest áhrif á mig eru Travis Scott, Tame Impala, Playboi carti, Mike Dean, Linkin Park, Sigur Rós, Arnór Brim og Leó Xin.“
Agnar stefnir vissulega á að ná góðum árangri í tónlistarheiminum, en forðast þó að setja á það allt of mikla pressu: „Ég stefni bara alla leið. Ég er samt ekkert að stressa mig, ég er með svo mikla ástríðu fyrir því að búa til tónlist að það skiptir engu máli hvernig þetta fer, ég vil bara skapa tónlist. Ég geri þetta ekki fyrir neinn annan nema sjálfan mig.“
Fyrsta fullorðins platan
Líkt og áður kom fram eru fimm ár liðin frá útgáfu fyrstu plötu Spacement, sem er í dag 22 ára gamall. Sú plata var því verk eftir ungling. Nýja platan ‚Kærleikur og kvíði‘ er aftur á móti verk eftir fullorðinn mann og fjallar einmitt að miklu leyti um það að fullorðnast: „Þessi plata hefur verið í gerð seinustu 4 ár. Þetta eru ár þar sem ég hef farið frá því að vera unglingur yfir í fullorðin einstakling sem borgar reikninga. Merkilegur tími, mikið chaos, maður er að finna sjálfan sig og sína leið inn í lífið.”
Agnar segir það frekar erfitt að skilgreina nákvæmlega hvers konar tónlist hann gerir: „Tónlistin mín getur verið mjög mismunandi en hún er alltaf rafmögnuð. Ef ég ætti að lýsa henni þá er hún eins og ferskt andrúmsloft, það er erfitt að setja hana inn í box með annari tónlist. Það er þetta ‚magic dust‘ sem ég strái yfir tónlistina sem lætur hana standa út úr.” Eins og sjá má er hann þó handviss um að hann sé með góða plötu í höndunum og sérstaklega frumlega: „[Þetta er] glænýtt. Ekki bara glænýtt frá mér heldur glænýtt fyrir heiminn. Þetta er timeless tónlist: Hún er ekki í tísku en hún eldist vel”
Aðspurður um titil plötunnar segir Agnar: “Lífið er upp og niður, kærleikur og kvíði eru tvær andstæðar tilfinningar sem við finnum öll fyrir af og til, þær blandast líka saman.“ Hann segist elska öll lögin á plötunni jafn mikið, en viðurkennir að fyrsta lagið ‚Velkomin‘ sé í miklu uppáhaldi eins og er.
Kæri lesandi: Skelltu þér á tónleika
Á tónleikunum næsta föstudag mun Spacement stíga fram ásamt tónlistarmönnunum Leó Xin og Jóel Erni Óskarssyni. Lokaskilaboð frá Agnari: „Mig langar að þakka öllum fyrir sem að komu að plötunni, vil þakka líka Verðandi og MAK fyrir styrkinn fyrir tónleikunum, ég hvet alla til að mæta.“
Hægt er að nálgast miða á útgáfutónleikana fyrir aðeins 2.990kr með því að smella hér. Viðburðurinn er styrktur af VERÐANDI listsjóð sem er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningarfélags Akureyrar.
UMMÆLI