Einar Brynjólfsson furðar sig á ráðningu bæjarstjóra á Akureyri

Einar Brynjólfsson furðar sig á ráðningu bæjarstjóra á Akureyri

Einar Brynjólfsson, fyrrum alþingismaður og þingflokksformaður Pírata, er hissa á ráðningu Ásthildar Sturludóttur sem bæjarstjóra á Akureyri ef marka má stöðuuppfærslu hans á Facebook í dag.

Tilkynnt var um ráðningu Ásthildar í morgun en Einar segir að hann hafi staðið í þeirri meiningu að meirihlutinn í bænum ætlaði að ráða ópólitískan bæjarstjóra. Nú komi það í ljós að nýráðinn bæjarstjóri tilheyri Sjálfstæðisflokknum.

Sjá einnig: Nýr bæjarstjóri á Akureyri

„Er þetta til marks um að meirihlutinn óttist harða andstöðu Gunnars Gíslasonar og Co, sem hann boðaði á dögunum, og nú eigi að slá vopnin úr höndunum á honum?” spyr Einar sig áður en hann óskar Ásthildi velfarnaðar í störfum sínum fyrir bæjarfélagið.

Stöðuuppfærsla Einars hefur vakið töluverða athygli en Brynhildur Pétursdóttir er á meðal þeirra sem hefur svarað Einari. Hún spyr hvort það geti ekki verið að konan sé ráðin eingöngu vegna þess að hún sé talin hæf, óháð öllum flokkadráttum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir þetta vera vísbendingu í átt að nýjum stjórnmálum.

Hér er blessunarlega litið framhjá flokksskírteinum og ákveðið að ráða mjög hæfan einstakling, öfluga konu með mikla reynslu sem bæjarstjóra. Vel gert hjá Akureyringum,” skrifar Þorgerður.

Stöðuuppfærslu Einars má sjá hér að neðan

UMMÆLI