Einar Brynjólfsson gefur kost á sér í 1. sæti

Einar Brynjólfsson.

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, gaf út yfirlýsingu á facebook rétt í þessu þar sem hann segist ætla að gefa kost á sér í 1. sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi. Einar hefur setið á þingi frá síðustu kosningum og segist eiga margt eftir óunnið og vilji þess vegna gefa kost á sér aftur.
Hér að neðan má sjá færslu Einars í heild sinni:

Kæru vinir og vandamenn.
Ég tilkynni ykkur hér með að ég ætla að gefa kost á mér í 1. sæti á lista Pírata í (hinum árlegu) kosningum til Alþingis, sem fram fara 28. október nk.
Þessir ellefu mánuðir, sem liðnir eru frá síðustu kosningum, hafa svo sannarlega verið viðburðaríkir. Ég hef kynnst starfsháttum þingsins, sem mætti nú heldur betur bæta. Ég hef kynnst fólki af öllum stærðum og gerðum úr hinum ýmsu hópum þjóðfélagsins. Verkefnin hafa verið fjölbreytt og krefjandi, alveg eins og við mátti búast, og ég hef reynt að leggja gott til málanna.
Þegar allt kemur til alls hefur þetta verið mjög skemmtilegur tími, þó að löng fjarvera frá fjölskyldunni hafi á stundum verið erfið.
Mér finnst ég eiga margt óunnið, ekki hvað sízt á sviði umhverfismála en sá málaflokkur hefur átt hug minn allan, eins og ykkur er kunnugt um. Þess vegna hef ég tekið þessa ákvörðun.
Ef ég fæ umboð kjósenda til að halda áfram starfi mínu, mun ég halda áfram af dugnaði á sömu braut, með réttlætiskennd og önnur Píratagildi að leiðarljósi og síðast en ekki sízt fullur auðmýktar gagnvart þeim verkefnum sem á mínum vegi verða.

UMMÆLI