Einar Höllu sendir frá sér nýtt lag

Akureyringurinn Einar Höllu sendi í dag frá sér lagið Þetta á ég með þér. Lagið er komið á Youtube og Spotify og farið að hljóma í útvarpi landsmanna.

Einar er 33 ára, alinn upp og búsettur á Akureyri. Hann hefur fengist við tónlist allt sitt líf og kemur úr tónelskri fjölskyldu. Ásamt því að syngja spilar hann á gítar, píanó og bassa. Undanfarin ár hefur hann mikið komið fram sem trúbador á börum og í veislum ásamt því að spila í hljómsveitum.

„Ég á og rek lítið hljóðver sem heitir Studio Arfleifð, þar varð lagið til. Mig hafði alltaf langað til að leika mér með hljóðgervla og effekta 80´s tímabilsins. Hef aldrei fengist við svoleiðis áður og fannst vera kominn tími á að prófa eitthvað nýtt. Textinn er tileinkaður konunni minni, enda er hún algjör meistarasmíð eins og segir í textanum,” segir Einar.

Einar stundar nám í upptökufræðum og hljóðvinnslu á skapandi tónlistarbraut í Tónlistarskóla Akureyrar.

„Ég hljóðblandaði lagið og fullkláraði það sem lokaverkefni á önninni sem leið, undir handleiðslu Hauks Pálmasonar. Á næsta skólaári stefni ég á að taka upp heila hljómplötu með hljómsveitinni minni Angurværð, en það er allt öðruvísi tónlist. Ferlið allt var hið skemmtilegasta, og ég ákvað að láta lagið út í kosmósinn og hef fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð.”

Hlustaðu á lagið hér að neðan

Sambíó

UMMÆLI