Ekki að óska eftir því að Akureyrarbær taki kjötvörur af matseðli

Ekki að óska eftir því að Akureyrarbær taki kjötvörur af matseðli

Eyrún Gísladóttir skrifar:

Sjá einnig: Segir að bæta þurfi næringu barna í skólum bæjarins

Ég var ekki að óska eftir því að Akureyrarbær taki út kjötvörur af matseðli í leik-og grunnskólum. Ég var að óska eftir því að farið væri eftir ráðleggingum embætti landlæknis í skólamötuneytum á Akureyri.

Áður en þú ætlar að tjá þig um þessi skrif mín þá hvet ég þig til þess að lesa textann til enda.

Mig langar að koma nokkrum hlutum á hreint eftir fréttaflutning gærdagsins og þær umræður sem hafa verið í kjölfar þess. Mál mitt fjallar um það að ég vilji sem foreldri og skólahjúkrunarfræðingur að Akureyrarbær bæti næringu í leik- og grunnskólum hjá Akureyrarbæ, og fylgi eftir ráðleggingum Embætti landlæknis eins og þeim ber skylda.

„Rjómlagaða pasta með skinku eða pylsum, pítsa með skinku, pepperóní og hakki, snakkfiskur, pepperónífiskur, svínagúllas í tikka masala, pylsusúpa, kjötbúðingur, fiskibúðingur, súrsætur grísapottréttur, allt eru þetta réttir á matseðlum í leik- og grunnskólum hjá Akureyrarbæ. Þetta er það sem verið er að bjóða börnunum okkar uppá.“

Grænmeti er af skornum skammti og ófjölbreytt en þá er helst boðið uppá hrátt grænmeti og grænmeti úr dós. Eldað, bakað, steikt grænmeti og grænmeti blandað í rétti eða grænmetis- og baunaréttir sjást sjaldan á matseðlum en í ráðleggingum frá embætti landlæknis er ráðlagt að borða grænmeti eða ávexti með öllum máltíðum og borða fjölbreytt úrval af grænmeti, bæði gróft og fínt, eldað og hrátt. Gróf korna vörur, eins og heilhveiti pasta, hýðishrísgrjón o.s.frv. eru í sumum skólum en alls ekki öllum.”

Í svari frá Akureyrarbæ HAFNA þeir því að ekki sé farið eftir ráðleggingum Embætti Landlæknis, þrátt fyrir að matseðlar í leik- og grunnskólum sýni einmitt það. Við höldum áfram að bjóða börnunum okkar, komandi kynslóðum, mat sem ekki er talin æskilegur og eykur líkur á lífstílstengdum sjúkdómum í stað þess að bjóða þeim fæðu sem að verndar gegn lífstílstengdum sjúkdómum.

Það minnsta sem að við getum gert fyrir börnin okkar og komandi kynslóðir er að bjóða þeim uppá næringarríkan og góðan mat í leik- og grunnskólum til þess að stuðla að betri lýðheilsu og koma í veg fyrir ýmis vandamál seinna á lífstíðinni!

Það sem ég lagði til í formlegu bréfi til fræðslusviðs Akureyrarbæjar er að: Unnar kjötvörur verði teknar af matseðlum leik- og grunnskóla hjá Akureyrarbæ (sbr. ráðleggingar Embætti landlæknis. Rautt kjöt verði minnkað til muna (sbr. ráðleggingum Embætti landlæknis) og boðið verði uppá grænmetis eða baunarétti í staðin. sykruðum matvörum, þ.e. kanilsykur, grænmeti og ávextir í dós með viðbættum sykri, ýmsar sósur eins og tómatsósur, sætar sósur osfrv.Unnið verði markvisst að því að bjóða uppá „hreinni“ mat, minna unnar vörur og meira frá jurtaríkinu sem unnið er frá grunni. Bætt verði til muna úrval og magn grænmetis, ekki bara hrátt grænmeti heldur eldað á allskonar hátt. Góðar og næringarríkar olíur séu í boði, t.d. til þess að setja útá hrátt grænmeti til að bragðbæta. Fylgt verði eftir ráðleggingum landlæknis og passað verði uppá að allir leik- og grunnskólar séu að fara eftir ráðleggingum landlæknis.

Dóttir mín og önnur börn sem að foreldrar/forráðamenn óska eftir að fái jurtafæði fái jurtafæði í leik- og grunnskólum. Ég legg til að jurtafæði verði í boði í öllum leik- og grunnskólum og að daglega geti öll börn valið á milli matseðla, þ.e. grænmetisfæði eða ekki.Síðasta málið mitt nr 8, kemur ekki beint fyrra málinu við en mig langar samt að koma því á framfæri þar sem mikill miskilningur hefur verið. Dóttir mín er 2 ára gömul og við foreldranir óskuðum eftir því að hún fengi ekki unnar kjötvörur á leikskólanum, starfsfólkið reyndi það af bestu getu en sagðist ekki geta tekið skinku t.d. úr pastanu osfrv.

Við tókum því þá ákvörðun að óska eftir að fá að nesta dóttur okkar þá daga sem eru kjötvörur þar sem við viljum helst ekki að hún borði kjöt. Okkur var neitað um það, og okkur boðið að hún fengi bara meðlæti þá daga sem væri kjöt. Einn daginn fékk hún því kartöflur, grænar baunir úr dós og brúna sósu, spennandi fyrir 2 ára barn! Eftir miklar samræður fengum við það í gegn að nesta dóttur okkar en það væri ekki í boði að geyma matinn í kæli eða hita hann upp. Við fáum því að nesta dóttur okkar núna, en hún fær að borða mat sem hefur staðið við stofuhita í 4 klst. Spennandi. Held að það séu ekki margir fullorðnir sem myndu láta bjóða sér það. Í handbók fyrir skólamötuneyti stendur að skólinn eigi að koma til móts við þarfir barna hvað varðar sérfæði af öðrum ástæðum s.s trúarlegum toga eða öðrum skoðunum foreldra þannig að þau geti fylgt sömu áherslum í sínu fæði og heima.

Þrátt fyrir það er algengt að foreldrum og börnum sem neita jurtafæðis sé neitað um slíkt í leik- og grunnskólum en flestir leik- og grunnskólar hjá Akureyrarbæ neita foreldrum um það. Í svörum frá Embætti landlæknis er einnig bent á handbók um skólamötuneyti og það að skólinn eigi að koma til móts við þarfir barna hvað sérfæði varðar. En þrátt fyrir það þá er þetta staðan í dag, árið 2021! Í svari frá Akureyrarbæ kemur fram að bærinn ætli ekki að bjóða uppá „tvíréttað“ í mötuneytum í skólum bæjarins, þ.e. ekki að koma til móts við þarfir barnanna. Ef að aðrir skólar á landinu geta það, afhverju ekki við?Mér er annt um heilbrigði dóttur minnar, ég vil gera allt sem ég gert í minni stöðu til þess að stuðla að hennar heilbrigði og koma í veg fyrir lífstílstengda sjúkdóma.

Það að skólakerfið standi í vegi fyrir mér í því að stuðla að góðri heilsu dóttur minnar er gjörsamlega fáránlegt. Það að ég sem foreldri fái ekki að hafa neitt um það að segja hvað dóttur minni er boðið í leikskóla er algjörlega útí hött. Hún er tveggja ára, hún er að læra að kynnast mat, allskonar mat, það er grunnurinn að hennar heilbrigði í framtíðinni og ég neita að sitja á mér og segja ekki neitt. Ég berst fyrir hennar heilsu.

Að lokum, ef þið hafið áhuga á uppskriftarinspo af íslenskum hefðbundnum heimilismat þa endilega followið næring_heilbrigdi_hamingja á Instagram

Sambíó

UMMÆLI