Ekki enn búið að gera við hjólastólalyftu í Sambíóunum

Sambíóin á Akureyri.

Kaffið greindi frá því fyrr í sumar að hjólastólalyftan í Sambíóunum á Akureyri er búin að vera biluð frá því í desember síðastliðinn. Þannig hefur fólk sem er í hjólastól ekki getað farið í bíó nema fara inn í salinn að aftan og þurfa þá að setja neðst, alveg upp við skjáinn og er einungis hægt í öðrum salnum þar sem salur B er uppi á annarri hæð.

Frétt Kaffisins fékk mikla athygli og vakti töluverða reiði hjá mörgum. Í kjölfarið fór allt á fullt hjá framkvæmdarstjórum Sambíóanna, að þeirra sögn, en nú er ennþá verið að bíða eftir varahlutum í lyftuna svo hægt verði að gera við hana. Þetta segir umsjónarmaður Sambíóanna á Akureyri, í samtali við Kaffið.
Hún segir að framkvæmdarstjóri Sambíóanna allra sé með umsjón yfir þessu máli og fullvissar hana um að búið sé að panta varahlutina og verið sé að bíða eftir að fá þá og iðnaðarmenn í verkið til að koma norður og gera við hana.

,,Það er nýlega búið að ýta á þá aftur að drífa sig og málið er í rauninni ekki í okkar höndum lengur, við erum bara að bíða. Það er ótrúlegt hvað allt tekur einhvern veginn miklu lengri tíma að koma til Akureyrar,“ segir hún.

Annar starfsmaður Sambíóanna á Akureyri segir stöðuna ömurlega.
,,Þetta er ömurlegt fyrir okkur sem vinna þarna að þurfa alltaf að segja fólki að lyftan sé biluð. Eðlilega er fólk ekki sátt. Það mætti halda að þessir varahlutir væru að koma frá tunglinu miðað við tímann sem þetta tekur.“
Sjá einnig:

Mjög slæmt aðgengi fyrir hjólastóla í kvikmyndahúsum Akureyrar

 

UMMÆLI

Sambíó