,,Ekki hefur verið ákveðið hvenær eigi að fjarlægja húsið“

Steinnes. Mynd: Níels Karlsson

Akureyrarbær hefur sent frá sér tilkynningu í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um fasteignina Steinnes sem stendur við Þórsvöll. Hana má lesa í heild sinni hér að neðan.

Í deiliskipulagi fyrir íþróttasvæði Þórs árið 2008 voru ákvæði um að einbýlishúsið Steinnes þyrfti að víkja. Ákvörðunin kallaði ekki á tafarlaust niðurrif hússins heldur var hún liður í langtímamarkmiði um uppbyggingu svæðisins. Skipulagsstjóri og bæjarlögmaður sáu um uppkaup á Steinnesi og náðust samningar 2008 sem meðal annars fólu í sér aðlögunartíma fyrir seljendur Steinness.

Við söluna gerðu bæjaryfirvöld samkomulag við seljanda um leigu til ársins 2014 sem síðan var framlengt til ársins 2017 að ósk leigjenda. Fyrri eigendur óskuðu aftur eftir framlengingu á þessu ári og bauð bærinn þeim að gera nýjan leigusamning en ekki tókust samningar.

Akureyrarbær leggur áherslu á að bærinn hefur engan hag af því að eignast húsið, annan en að með því er hægt að byggja upp eitt helsta íþrótta- og tómstundasvæði bæjarbúa til framtíðar. Ekki hefur enn verið ákveðið  hvenær eigi að fjarlægja húsið þótt áformum um niðurrif þess hafi ekki verið breytt. Gert er ráð fyrir niðurrifi í gildandi deiliskipulagi frá árinu 2008 og ef hverfa á frá því, þarf að breyta deiliskipulaginu.

Áform um uppbyggingu á Þórssvæðinu og niðurrif Steinsness eru því óbreytt og því eru fréttir um breytingar á skipulagi einfaldlega rangar.

Eðlilega fylgja málum sem þessum tilfinningar. Húsinu hefur verið vel við haldið og fullur skilningur er á að erfitt sé að segja skilið við eignina. Þar sem fyrri eigendur höfðu ekki hug á að taka tilboði bæjarins um framlengdan leigusamning þótti þó rétt að nýta húsið áfram og var ákveðið að leigja það tímabundið fyrir sýrlenska fjölskyldu sem kom til bæjarins sem flóttafólk í ársbyrjun 2016.

Sjá einnig

Flóttamenn flytja í húsið við Þórsvöll

UMMÆLI