Embættismaður eða leiðtogi

Gunnar Gíslason skrifar:

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins segir að bæjarstjóri verði pólitískt ráðinn með skýrt umboð til forystu og framkvæmdastjórnar. Það er ekki að ástæðulausu sem þetta er tekið sérstaklega fram. Það er hlutverk bæjarfulltrúa að móta stefnu í öllum málaflokkum bæjarins. Sú stefna hlýtur að taka mið af pólitískri sýn bæjarfulltrúa sem bæjarbúar völdu til verka í kosningum, þar sem stefnuskrá lá til grundvallar því hverjir hlutu kosningu og umboð til að stjórna bænum.

Það hallast sumir að því að auglýsa eftir bæjarstjóra og ráða það sem kallað er faglegan ópólitískan bæjarstjóra. Ég fæ með engu móti skilið hvað er verið að fara með því. Ef pólitískur meirihluti kemur sér saman um pólitíska stefnu, er þá málið að ráða ópólitískan bæjarstjóra til að fylgja henni eftir og leiða vinnuna við það inn í kerfið? Getur slíkur bæjarstjóri kallast ópólitískur bæjarstjóri, þar sem hann er ráðinn af pólitískum meirihluta sem fylgir pólitískri stefnu? Svar mitt er einfaldlega nei. Er hann bæjastjóri allra íbúa af því að hann er ráðinn af hluta bæjarfulltrúa án þess að íbúar séu spurðir álits? Nei og aftur nei. Þessi röksemdafærsla stenst ekki. Bæjarstjóri er alltaf í pólitísku hlutverki sem slíkur og getur aldrei orðið annað vegna þess að honum er ætlað að vera leiðtogi allra starfsmanna bæjarins á grundvelli pólitískrar stefnu.

 

Bæjarstjóri er samkvæmt skipuriti æðsti stjórnandi bæjarins. Bæjarfulltrúar geta samkvæmt reglum bæjarins aldrei haft bein afskipti af störfum stjórnenda eða starfsmanna bæjarins. Þeir geta hins vegar haft samband við bæjarstjóra og beðið hann um að koma ábendingum sínum á framfæri eða hlutast til um að brugðist verði við ábendingum þeirra. Bæjarstjórinn er því í algjöru lykilhlutverki þegar kemur að því að fylgja stefnu og ákvörðunum bæjarstjórnar eftir. Hann þarf því að hafa skýrt umboð til forystu og framkvæmdastjórnar. Það gengur einfaldlega ekki upp að hann geti ekki brugðist við málum, vegna þess að hann eigi það á hættu að verða snupraður fyrir, af því að viðbrögð hans falla ekki að pólitískri sýn meirihlutans. Slík staða bæjarstjóra gerir hann í raun ósýnilegan og leiðtogi má og getur aldrei verið ósýnilegur. Þess vegna leggjum við áherslu á að bæjarstjóri verði pólitískt ráðinn með skýrt umboð, til að gera bæinn betri.

Gunnar Gíslason, 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.


Goblin.is

UMMÆLI


Goblin.is