Endurfæðing

Endurfæðing

Tímarnir sem við lifum núna eru eins og að lifa skáldsögu eða kvikmynd og víst er að höfundar hafa margoft sett upp landslagið sem heimurinn allur upplifir núna. Veirufaraldur svo hastarlegan að allt mannlíf er sett úr skorðum um lengri eða skemmri tíma. Sérhver einasti jarðarbúi upplifir ógnina á sinn hátt og það rennur upp fyrir okkur flestum að nú erum við öll á sama báti, jafnvel þótt stjórnvöld reyni að ýta undir þjóðernishyggju.

Það er samt gott að búa með lítilli þjóð núna. Þjóð sem hefur svo lengi verið einangruð í hafinu að henni er eðlislægt að hafa nægt rými fyrir hvern og einn, þjóð sem er svo fámenn að sérhver einstaklingur skiptir máli. Þjóð sem kann að rísa upp gegn kúgurum og valdastétt og hefur gert það áður.

Við höfum eins og heimurinn tekið þátt í kapphlaupinu á þessari öld, ferðalög á milli heimsálfa eru sjálfsögð, neyslan gengdarlaus og virðing fyrir jörðinni sem elur okkur er hverfandi. Mannkynið hefur ítrekað fengið viðvaranir um að hægja á, hægja á lífsmynstri, kröfum, neyslu, ferðalögum og stríðsrekstri.

Dæmin um hamfarahlýnun, skógarelda, endaskipti á árstíðum,- og nú veirufaraldur sem ljóst er að tekur af okkur ráð og völd. Við erum tilneydd til að hægja á.

Sjálf veiktist ég hastarlega í febrúarbyrjun af kvilla sem ekkert hafði með veirur að gera heldur voru eftirköst og aukaverkanir eftir gallblöðrutöku. Ég var á Landspítala eftir aðgerð í lok febrúar og þá var þjóðin að byrja að átta sig á nýjum veruleika þegar veiran fór að stinga sér niður og smitaðir streymdu heim frá norður Ítalíu og Austurríki. Þrátt fyrir að hafa verið mikið veik í margar vikur, óttaðist ég samgang við aðra á spítalanum, hafði minn eigin sprittbrúsa á náttborðinu mínu og hélt eins mikilli fjarlægð og mér var unnt.

Ég komst á Sjúkrahúsið á Akureyri með sjúkraflugi daginn fyrir heimsóknarbann á Landspítalanum og fékk að útskrifast heim í leyfi daginn sem slíkt bann tók gildi hér. Ég hef aldrei verið eins fegin á ævinni að komast heim til Akureyrar og hef ég þó oft verið afar glöð vegna þess.Það góða fólk sem sá til þess að ég komst alla, hjúkraði, læknaði og hlúði að mér, fær ævinlangar blessunaróskir.

Þessi tími átti reyndar að vera uppskerutími, bókarkornið sem ég hafði unnið að í heilt ár, var gefið út í byrjun mars og ljósmynda og ljóðasýning var opnuð að mér fjarstaddri í marsbyrjun. Mér var reyndar sama,- ég var svo fegin að vera á lífi og fá að vera heima. Veikindin voru óvænt þótt ég hefði fundið lengi fyrir aðdraganda þeirra og mig grunaði ekki að svona gæti farið.

Og nú er ég á sama stað og allir hinir, nema hvað orka og úthald eiga langt eftir og ég þarf að bíða eftir síðustu aðgerðinni minni. Ég get orðið sett í þvottavél, farið sjálf í sturtu og þurrkað af og það eru lífsgæði. Ég get farið í stuttan göngutúr á góðum dögum og ég hef nægan tíma til að hugsa um framtíðina og gera mitt til að varpa af mér fortíðinni.

Þannig ætla ég að líta á þessa tíma sem endurfæðingu. Fæðingu nýrra tíma, nýrra hugsana, nýrra tækifæra. Ef ég hef þann styrk sem þarf til að komast í gegnum aðdraganda endurfæðingarinnar, þá vil ég vera í liðinu sem styður nýja hugsun, sjálfbærni og vonandi betri heim fyrir börnin okkar og barnabörnin.

Kannski eru þetta útópísk markmið en þó ekkert óraunverulegri en það sem setti þau af stað. Ég hef ennþá trú á því að mannkynið geti lært og breyst en hver og einn getur ekki meira en að setja sér eigin markmið og fagna vorinu og því að betri tímar munu koma.

UMMÆLI