„Enginn betri staður að vera á“

„Enginn betri staður að vera á“

Guðrún Mist lærir iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri. Hún er næsti viðmælandi Kaffið.is í föstum lið þar sem við fáum að kynnast mannlífinu við skólann.


HVERNIG VAR FYRSTI DAGURINN ÞINN Í HA?

– Fyrsti dagurinn minn var frekar stressandi en samt svo spennandi. Það var mikil tilhlökkun í því að hitta alla samnemendur mína sem myndu stunda námið með mér næstu árin og svo auðvitað þá kennara sem kenna mér. Ég var einnig spennt yfir því að kynnast háskólaumhverfinu, kynnast stúdentafélaginu og svo auðvitað mínu félagi, Eir. Fyrsta daginn fann ég strax og sá hvað skólinn er mikil heild, allir tilbúnir að aðstoða og vel tekið á móti manni. 

HVERNIG FINNST ÞÉR HÁSKÓLALÍFIÐ Á AKUREYRI? 

– Háskólalífið á Akureyri er svo skemmtilegt, hvort sem það sé að læra á teppinu eða bókasafninu með vinum sínum eða allir viðburðirnir sem eru haldnir á skólaárinu sem hægt er að sækja. Ég er búin að kynnast svo mörgu skemmtilegu fólki og eignast marga vini sem ég  mun svo sannarlega halda áfram að styrkja samband við og eiga að vinum í gegnum lífið.

HVAÐA RÁÐ MYNDIR ÞÚ GEFA NÝNEMUM SEM ERU AÐ HEFJA NÁM VIÐ HÁSKÓLANN? 

– Auðvitað stunda námið af kappi en ekki gleyma að taka þátt í því félaglífi sem er í boði. Ég myndi einnig segja við nýnema að taka þátt og vera með í viðburðum, skrá sig í nemendafélag og njóta. Hvort sem það eru lotuhittingar, vísindaferðir, sprellmót eða aðrir viðburðir þá hvet ég alla að mæta á alla viðburði sem þeir komast á! Vera dugleg að spyrja og forvitnast og auðvitað taka virkan þátt í náminu.

ÞRJÁR ÁSTÆÐUR AF HVERJU ÞÚ VALDIR HÁSKÓLANN Á AKUREYRI?

– Ég valdi HA þar sem það er eini skólinn sem býður upp á nám í iðjuþjálfunarfræði, svo er hrikalega heppilegt að það sé á Akureyri þar sem ég er fædd og uppalin hér og enginn betri staður að vera á. Einnig var ég búin að heyra að kennslan í HA væri persónuleg sem heillaði mig. Var búin að tala við einstakling sem kláraði iðjuþjálfunarfræði og talaði mjög vel um námið og eftir það var ekkert annað í stöðunni en að skrá sig og sé ég sko ekki eftir því

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó