fbpx

„Er ég leiðinlegur? Þegar ég hlusta á Freyju tala hugsa ég, hvort á ég að skjóta mig núna eða á eftir?”

Freyja Steindórsdóttir skrifar:

Það eru tvö ár síðan þessi orð voru sögð fyrir framan mig. Síðan þá hafa margir sagt að ég mætti ekki festa mig í þeim, að ég ætti bara að hætta að velta mér upp úr þeim. Nokkrir hafa meira segja sagt að það væri asnalegt að vera endalaust að pæla í þessu yfir höfuð. En því miður rötuðu þessi orð inn í heilann á mér, þar sem litlar pöddur sem kalla sig þunglyndi festu sig við þau og pössuðu að þau myndu sveima þar um löngu eftir að allir aðrir hefðu gleymt þessu.

Heilinn minn er eiginlega bara eins og mjög vel skipulagt pósthús, byggt af þessum þunglyndispöddum. Inn koma góðar hugsanir og hrós og þær flokkast sem rusl, ýmist lífrænt eða ólífrænt eftir því hvort þær koma frá fólki eða hlutum eins og góðum bókum. Skólatengdir hlutir rata oftast í rétt hólf en þegar seint líður á önninna virðist hólfið minnka og spíta út eða gleyma því sem inn kemur. Allt sem sannar það að ég sé ill manneskja fer í þráhyggju kassann og er hann tæmdur á kvöldin í gegnum hugsanarásina. Svo detta annað slagið inn alvarlegri og verri hugsanir sem eru afhentar jafnóðum í áráttukerfið, til dæmis þegar ég er að labba yfir götuna eða er undir stýri.

Ýmsir aðilar hafa reynt að ræða við rekstrarstjórann, mig (sem er að vísu ekki að vinna þar af sjálfstæðum vilja heldur niðurfjötruð með bundið fyrir augun), og breyta starfsemi pósthússins. Sumir hafa stungið upp á nafnabreytingu sem efla jákvæðni meðal starfsfólksins og aðrir vilja rífa niður starfsemina algjörlega og byrja upp á nýtt. Aðrir vilja meina að pósthúsið sé ekki til yfir höfuð til (en það er líka fólk sem talar um ‘helvítis’ flóttamenn og hvað lífið hafi verið gott í gamla daga, þannig að dæmi hver fyrir sig hversu mikið mark á þeim ætti að taka).

Pósthúsið hefur þó nýlega tekið ýmsum stjórnarbreytingum að ofan. Ýmsir aðilar í stjórnarnefndinni, til dæmis frú Seroxat og mamma mín, hafa rekið flest alla starfsmenn pósthússins og eru nú einungis nokkrar pöddur eftir sem sjá um flokkunina. Það verður oft til þess að flokkað er vitlaust þannig að áráttu- og þráhyggju hugsanirnar fara óvart í ruslið á meðan hrós og lífsgleði lenda í þráhyggjukassanum.

Skuggaleg ný pöddutegund, blómapaddan, sem klæðist ósamstæðum sokkum og er með glimmer í hárinu, laumast inn á nóttunni og endurflokkar þannig að suma morgna eru allir kassar tómir nema þeir jákvæðu. Þó svo að þetta geri lífið erfitt fyrir þunglyndispöddurnar endurnæra þær sig með því að kíkja í lagerinn, þar sem allt var vistað tvisvar áður en hlutirnir fóru að breytast. Þar draga þær út gamlar upplifanir eins og fyrirsögn þessar greinar og senda þær í skemmtiferð um hugsanastreymið sér til skemmtunar eftir vinnu.

En það sem þær vita ekki er hvers vegna blómapöddurnar hafa verið með skítaglott á sér síðustu vikur. Þær hafa nefnilega fundið nokkur ráð til að svæfa þunglyndin litlu – þar má nefna ísferðir, hundaheimsóknir, og fósturfjölskyldur.

Og á meðan þær sofa, læðast blómapöddurnar inn á lager, með tætara.

Kæru vinir, passið upp á andlegu heilsuna. Hafið samband við sálfræðing, traustan vin eða hjálparlínu Rauða krossins ef ykkur líður illa eða eigið í erfiðleikum. Lífið er of stutt til að líða illa.

Greinin birtist fyrst í vorblaði Munins, skólablaði Menntaskólans á Akureyri.

UMMÆLI