Er þetta fjarstæðukennd hugmynd?

Er þetta fjarstæðukennd hugmynd?

Grenndargralið vill leggja til við þá sem starfa í ferðaþjónustu í heimabyggð að eftirfarandi hugmynd verði skoðuð af fullri alvöru svo svala megi þörfum ævintýraþyrstra ferðamanna þegar covid lýkur.

Á Oddeyrartanga verði byggður ca. 20 metra hár stálturn með lyftu. Úr toppi þessa turns liggur stáltaug yfir Eyjafjörð og alla leið upp á Vaðlaheiðarbrún og til baka aftur. Á þessari stáltaug hanga tvær stórar körfur sem taka ca. 20—30 manns hvor. Á miðri leið, eða sem næst þjóðveginum, verði hús sem körfurnar ganga í gegnum og mætast í svo farþegar geti bæði farið úr og í á þessum viðkomustað. Uppi á heiðinni komi veitingahús eða jafnvel lítið hótel. Fólk myndi streyma þarna upp allt árið, sér í lagi útlendingar, til að sjá miðnætursólina og skíðafólk að vetrinum til skíðaiðkana. Þá mætti auglýsa Akureyri um allan heim sem fyrsta flokks skíðabæ og athyglisverðan sumardvalarstað. Hvílík lyftistöng þetta yrði fyrir allt atvinnu- og fjármálalíf bæjarins. Hugmyndin er mjög fjárfrek í byrjun en hún skilar fljótlega miklum arði til baka. Væri ekki athugandi fyrir Akureyri að kynna sér að minnsta kosti kostnaðinn við byggingu slíks fyrirtækis og líkurnar fyrir rekstursafkomu þess?

Hugmyndin er líklega að margra mati í besta falli háleit, í versta falli óraunhæf með öllu. Eða hvað? Grenndargralið hefur á undanförnum árum lagt til stórhuga hugmyndir til eflingar sögu og menningu heimabyggðar – til gamans eða í fullri alvöru eftir aðstæðum. Umrædd hugmynd er þó ekki runnin undan rifjum Grenndargralsins. Hún er tæplega 70 ára gömul. Lítið fór fyrir henni þegar hún birtist í Degi þann 21. maí árið 1952 undir heitinu Bréf: Er þetta fjarstæðukennd hugmynd? Undir bréfið skrifar K.

Er þetta fjarstæðukennd hugmynd?

Heimild: Grenndargralið

UMMÆLI

Sambíó