Evrópuleikur KA verður á Greifavellinum í lok júlí

Evrópuleikur KA verður á Greifavellinum í lok júlí

Nú er ljóst að KA fær að spila heimaleik sinn í 2. umferð Sambandsdeildarinnar á Akureyri – eftir að UEFA veitti félaginu sérstaka undanþágu til leikjahalds á Greifavellinum í fyrstu tveim umferðum Sambandsdeildarinnar. Þetta er breyting frá því fyrir tveimur árum, þegar liðið lék sína heimaleiki í Sambandsdeildinni á höfuðborgarsvæðinu.

Ástæða undanþágunnar er meðal annars sú uppbygging sem á sér stað á KA-svæðinu til að mæta alþjóðlegum stöðlum. Afgerandi þáttur í að leyfið fékkst var umfangsmikil vinna sjálfboðaliða við að gera völlinn og umhverfi hans klárt fyrir Evrópukeppni samkvæmt vef KA.

„Þetta er risaskref fyrir félagið og samfélagið allt á Akureyri. Við erum gríðarlega stolt af þeirri viðurkenningu sem felst í því að fá að spila fyrsta heimaleik okkar í Evrópu á Greifavellinum – þrátt fyrir að vera í miðri framkvæmd. Þetta sýnir að framtíðarsýn KA og Akureyrarbæjar nýtur virðingar og trausts í hinu metnaðarfulla alþjóðlega knattspyrnuumhverfi“ segir Hjörvar Maronsson formaður knattspyrnudeildar KA.

Dregið verður í annarri umferð Sambandsdeildarinnar í Nyon í Sviss á morgun 18. júní þar sem KA verður í pottinum. Leikir annarrar umferðar fara fram dagana 24. og 31. júlí næstkomandi. Auk þess að vita hver andstæðingur KA verður þá kemur í ljós þegar dregið er hvort liðið muni spila fyrri eða síðari leikinn á heimavelli. Þetta verður í fyrsta skiptið sem Evrópuleikur í knattspyrnu fer fram á KA-svæðinu. KA lék Evrópuleiki sína árið 1990 og 2003 á Akureyrarvelli og svo eins og kom fram á Framvelli og Laugardalsvelli sumarið 2023.

UMMÆLI