Prenthaus

Fagnar 100 ára afmæli

Fagnar 100 ára afmæli

Helga Steinunn Jónsdóttir frá Hrísey fagnar 100 ára afmæli sínu í dag. Hún fæddist á Kálfsskinni á Árskógsströnd 2. febrúar 1921. Foreldrar hennar áttu sex börn, þar af tvenna tvíbura. Bergrós tvíburasystir Helgu varð 93 ára og hálfbróðir Helgu samfeðra er Sveinn á Kálfsskinni sem er Akureyringum að góðu kunnur. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar í dag.

Þar segir: „Helga kynntist verðandi eiginmanni sínum Jóhanni Ásgrími Ásmundssyni á Árskógssandi en árið 1965 fluttu þau til Hríseyjar og bjuggu þar í Syðstabæ. Þeim varð þriggja barna auðið en Jóhann lést árið 1970. Helga bjó þá áfram í Syðstabæ með dóttur sinni og 5 börnum hennar allt þar til hún fluttist á dvalarheimilið Dalbæ fyrir fáeinum árum. Helga sinnti ýmsum störfum í gegnum tíðina og vann meðal annars í frystihúsinu í Hrísey en einnig þótti hún mjög liðtæk saumakona og aðstoðaði gjarnan konur sem voru að sauma upphlut eða annað sem tengdist þjóðbúningasaumi.

Helga hefur enn lögheimili í Hrísey og er því íbúi sveitarfélagsins Akureyrarbæjar. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, heimsótti Helgu í morgun og færði henni blómvönd frá bæjarstjórn Akureyrar í tilefni dagsins. Fór vel á með þeim stöllum og hafði Helga frá ýmsu að segja, enda er hún mjög ern, hress og kát þótt heyrnin sé aðeins farin að gefa sig.“

Mynd: Ragnar Hólm/akureyri.is

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó