FF Múrbrjótar hljóta grasrótarverðlaun KSÍ

FF Múrbrjótar hljóta grasrótarverðlaun KSÍ

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands samþykkti á fundi sínum 18. febrúar að veita tvenn grasrótarverðlaun fyrir árið 2020 – annars vegar til Fótboltafélagsins Múrbrjóta á Akureyri og hins vegar til Kormáks frá Hvammstanga og Hvöt frá Blönduósi.

Fótboltafélagið Múrbrjótar hefur það að markmiði að bjóða einstaklingum sem takast á við geðræn og félagsleg vandamál upp á fótboltaæfingar, auka þátttöku í hollri hreyfingu, efla samfélags- og félagsvitund og rjúfa einangrun fólks með því að hittast og spila fótbolta. Verkefnið, sem er á vegum búsetusviðs Akureyrar, fór af stað árið 2015 en Fótboltafélagið Múrbrjótar var formlega stofnað árið 2018.

„Á ári eins og því síðasta, þar sem auknar líkur á félagslegri einangrun voru svo sannarlega fyrir hendi, þá sönnuðu Múrbrjótar enn frekar gildi sitt, með því að bjóða okkar viðkvæmasta hópi upp á tækifæri til að rjúfa þá einangrun með fótboltaæfingum sem opnar voru öllum. Fótboltafélagið Múrbrjótar er vel að grasrótarverðlaunum KSÍ komið,“ segir á vef KSÍ.

UMMÆLI