Fjölmenni í 1. maí hlaupi UFA

Fjölmenni í 1. maí hlaupi UFA

Mikið fjölmenni var í 1. maí hlaupi UFA. Ríflega 660 hlauparar á öllum aldri hlupu af stað og þá eru ótaldir þeir foreldrar sem tóku sprettinn sem fylgdarmenn barna sinna í styttri hlaupunum. Í umfjöllun á vef UFA um hlaupið segir að á svæðinu hafi klárlega verið vel yfir þúsund manns. 

„Þetta er að því er við höldum fjölmennasta 1. maí hlaup UFA frá upphafi. Veðrið var milt og gott, dagarnir gerast varla betri,“ segir í tilkynningu á vef UFA.

Um 260 leikskólabörn hlupu einn hring á vellinum eftir góða upphitun undir stjórn frjálsíþróttaþjálfara UFA, Unnars Vilhjálmssonar. Um 280 grunnskólabörn hlupu svo af stað í 2 km hring, í þremur hópum eftir aldri. Þau komu þreytt en sæl í mark eftir afrekið. Máttu þeir foreldrar sem fylgdu sumum eftir hafa sig öll við að missa ekki af þeim.

Að lokum hófst 5 km hlaup og þar voru skráð til leiks um 70 krakkar og 50 fullorðnir. Leiðin er býsna löng og á fótinn lengi framan af en allir stóðu sig vel og skiluðu sér kátir í mark. Úrslit hlaupsins verða birt hér einhvern næstu daga.

Í þátttökukeppni grunnskóla sigraði Þelamerkurskóli í hópi fámennari skóli en þar tóku 35% nemenda þátt í hlaupinu, Valsárskóli var í öðru sæti og Grenivíkurskóli í því þriðja. Í flokki fjölmennari skóla sigraði Síðuskóli, þar tóku 19% nemenda þátt í hlaupinu, Glerárskóli varð í öðru sæti og Oddeyrarskóli í því þriðja. Við óskum skólunum til hamingju með þennan léttstíga nemendahóp.

Allir þátttakendur fengu þátttökupening að launum og frímiða í sund. Auk þess var pizzusneið frá Sprettinum og drykkur frá MS í boði upp við Hamar fyrir hlaupara.

„Við hjá UFA erum alsæl með þátttökuna, kraftinn og gleðina sem var í hópnum, hlökkum strax til næsta 1. maí hlaups að ár,“ segir á vef UFA þar sem má finna myndir frá deginum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó