Fjölskylda í Lögmannshlíð birtist í myndbandi breska hersins

Fjölskylda í Lögmannshlíð birtist í myndbandi breska hersins

Í lok september árið 1940 birtu staðarblöð á Akureyri tilkynningu þess efnis að breska setuliðið væri búið að opna skrifstofu á Ráðhústorgi 7. Skrifstofan bar heitið Hirings and Complaints Office – Northern Iceland. Þangað áttu þeir að leita sem vildu kvarta undan setuliðinu svo sem vegna skemmda á eigum, skaðabótakrafna og annars konar deilumála.

Þriggja manna nefnd var fengið að skera úr um mál sem skrifstofunni bárust. Í nefndinni sátu tveir yfirmenn í breska herliðinu og Dr. Kristinn Guðmundsson síðar utanríkisráðherra og ambassador. Gera má því skóna að Kristinn hafi þannig verið í aðstöðu til að eiga í nánari samskiptum við yfirmenn breska setuliðsins en tíðkaðist hjá hinum almenna bæjarbúa þess tíma.

Dr. Kristinn kom nokkuð við sögu í hlaðvarpsþáttunum Leyndardómar Hlíðarfjalls sem Sagnalist gaf út í sumar. Einn af viðmælendum í þáttunum er Málfríður Torfadóttir, fædd í apríl 1939. Og það er hérna sem málið tekur óvænta en afar skemmtilega stefnu.

Títtnefndur Kristinn var föðurbróðir Málfríðar. Stjórnanda hlaðvarpsþáttanna, þeim hinum sama og þessi orð ritar, var kunnugt um skyldleika þeirra á meðan vinnu við gerð þáttanna stóð vegna ljósmyndar sem tekin er í hlíðinni ofan Akureyrar og margir þekkja frá fyrri tíð. Myndin sýnir Málfríði í fangi móður sinnar þar sem þær eru umvafnar fjölskyldumeðlimum og tveimur setuliðsmönnum. Myndin hefur víða birst opinberlega í gegnum tíðina, bæði í bókum og blöðum. Kristinn er ekki á myndinni en hún varð engu að síður tilefni samtals okkar Málfríðar um hann þegar við hittumst vegna þáttagerðarinnar. Þannig fékk ég vitneskju um fjölskyldutengsl þeirra tveggja.

Fyrir tilviljun horfði ég núna um nýliðna helgi á gamalt áróðursmyndband á youtube sem breski herinn lét gera árið 1940 um veru setuliðsins hér á landi. Myndbandið sem um ræðir er hið sama og Grenndargralið hefur áður fjallað um í tengslum við heimsókn Gort lávarðar til Akureyrar. Ég kunni engin deili á fólkinu eða umhverfinu á meðan ég horfði á myndbandið en fannst þó sem ég kannaðist við eitthvað. Ég áttaði mig samt ekki á því hvað það var. Í myndbandinu má sjá setuliðsmenn blanda geði við íslenskt sveitafólk á öllum aldri á bæjarhlaði úti í sveit. En hvar? Og hvaða fólk var þetta?

Eitt augnablik fannst mér sem ákveðin líkindi væru með myndbandinu og ljósmyndinni án þess að átta mig á í hverju þau fælust. Ég sótti bók með myndinni í og bar saman til að taka af allan vafa. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Sama fólk var á myndinni og í myndbandinu sem tekið var í Lögmannshlíð ofan Akureyrar og sýnir heimilisfólkið á bænum. Greina má Lögmannshlíðarkirkju í bakgrunni. Meðal þeirra sem koma fram í myndbandinu eru Málfríður og Kristinn föðurbróðir hennar auk fleiri fjölskyldumeðlima. Foreldrar Kristins voru með búskap á jörðinni á þessum tíma ásamt honum sjálfum sem líklega skýrir staðsetninguna.

Stórfjölskyldan er meira og minna öll spígsporandi í myndbandinu, fáeinum metrum austan og ofan við kirkjuna og í sínu fínasta pússi. Ekki er óvarlegt að álykta sem svo að henni hafi þarna verið hóað saman vegna myndatökunnar. Kannski fyrir tilstuðlan Kristins vegna tengsla hans við breska setuliðið og/eða vegna Torfa, föður Málfríðar sem einnig bregður fyrir í myndbandinu og starfs hans sem túlkur hjá hernum. Ekki er þó hægt að fullyrða nokkuð um það. Gort lávarður og föruneyti hans var statt á Akureyri 21. október 1940, u.þ.b. mánuði eftir að Kristinn tók til starfa í nefndinni sem áður var nefnd.

Vegna þess að Málfríður birtist í myndbandinu er hægt með góðu móti að tímasetja það. Myndbandið er tekið sumarið eða haustið 1940 og því ekki útilokað að það hafi gerst á meðan Gort dvaldist á Akureyri. Ef ekki, þá er í það minnsta víst að það er tekið skömmu áður en hann kom til landsins og engum vafa undirorpið að það var notað í áróðursskyni. Vafalítið hefur það komið fyrir augu fjölmargra Breta á árum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Ég hafði samband við dóttur Málfríðar til að láta hana og hennar fólk vita af tilvist myndbandsins. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Segir af því síðar.

Hægt er að horfa á tvær útgáfur af myndbandinu á heimasíðu Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó