Fjórir einstaklingar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa verið ráðnir í stöður við Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri (HHA). Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjúkrahúsinu á Akureyri.
HHA er sameiginlegur vettvangur starfsmanna SAk og HA til eflingar rannsókna í heilbrigðisvísindum. Hlutverk HHA er m.a. að efla SAk sem rannsóknar- og kennslusjúkrahús, stuðla að aukinni rannsóknarsamvinnu, hafa samstarf um upplýsinga-, bókasafns-, tölvu- og upplýsingaþjónustu sem og að standa að sameiginlegum málþingum. Það starfsfólk sem tekur við stöðunum hjá HHA, til þriggja ára eru:
- Dr. Alexander Kristinn Smárason, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, prófessor
- Dr. Björn Gunnarsson, svæfingalæknir, dósent
- Dr. Laufey Hrólfsdóttir, forstöðumaður deildar mennta og vísinda, lektor
- Dr. Ragnheiður Harpa Arnardóttir, sjúkraþjálfari, prófessor
„Samstarf SAk og HA mikilvægt“
Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Lækninga hjá SAk, segir á heimasíðu SAk að HHA sé ákaflega mikilvægur vettvangur: „Líkt og fram kemur í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 hafa vísindarannsóknir þýðingarmikið hlutverk í þróun heilbrigðisþjónustu, þær styrkja okkar þátt í menntun nema í heilbrigðisfræðum, efla mannauðinn okkar og skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi. HHA er mikilvægur vettvangur SAk og HA, enda eru forsendur góðrar heilbrigðisþjónustu byggðar á rannsóknum og þróun, ásamt möguleikum til að nýta sér þekkingu.“
UMMÆLI