Prenthaus

Fleiri en 60 fjölbreyttir viðburðir á Akureyrarvöku

Fleiri en 60 fjölbreyttir viðburðir á Akureyrarvöku

Akureyrarvaka verður haldin frá föstudegi til sunnudags í höfuðstað Norðurlands. Á dagskrá eru fleiri en 60 fjölbreyttir viðburðir sem verða í boði víðsvegar um miðbæinn. Setningarhátíðin Rökkurró hefst kl. 20 á föstudagskvöldið í Lystigarðinum og að því búnu tekur meðal annars við Draugaslóð í Innbænum en þeim viðburði fylgja þau varnaðarorð að ófreskjur og óhljóð gætu skotið börnum og viðkvæmum skelk í bringu. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

„Þetta er afmælishátíð Akureyrarbæjar og í ár fögnum við því að 160 ár eru frá því bærinn fékk kaupstaðarréttindi,“ segir Almar Alfreðsson verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ og skipuleggjandi hátíðarinnar á vef bæjarins.

„Þetta er fyrst og fremst veisla fyrir bæjarbúa og gesti bæjarins. Ég veit líka að margir sem eiga rætur að rekja til Akureyrar vilja leggja leið sína hingað þessa helgi því það er í raun fáránlega mikið um að vera, margt á okkar vegum en annað sjálfsprottið ef svo má segja. Myndlistarsýningar verða víðsvegar um bæinn, dans og gamanmál, markaðir og öðruvísi sýningar, og að venju verður tónlistin mjög áberandi.“

Meðal þeirra tónlistarmanna sem láta ljós sitt skína á Akureyri þessa helgi eru Unnsteinn & Hermigervill, Á móti sól, Villi vandræðaskáld, Högni Egils, Dr. Gunni, Bryndís Ásmunds, Anton Líni, Rúnar Eff, Herbert Guðmundsson, Stebbi JAK, Klara Elías, Magni Ásgeirs, Eyþór Ingi og bæjarlistamaðurinn Kristján Edelstein. Af stærri viðburðum má nefna tónleika í Hofi þar sem saga Tónaútgáfunnar er rakin, uppákomu með Gunna og Felix, Tweed Ride hjólaviðburðinn og Friðarvöku í Kirkjutröppunum.

Dagskráin í heild sinni er birt á Akureyrarvaka.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó